Í mörg horn að líta á skrifstofunni
Það er í mörg horn að líta á skrifstofu Verkmenntaskólans. Enda ekki skrítið, skólinn er einn af stærstu vinnustöðum á Akureyri með um eitt þúsund nemendur í dagskóla og á annað hundrað starfsmenn. Rósa Margrét Húnadóttir er ein þeirra sem vinnur á skrifstofunni.
„Það er mjög ánægjulegt að fá alla nemendur aftur í skólann og sjá lífið kvikna hér aftur, þó svo að skólastarfið sé ekki komið í það horf sem það var fyrir Covid,“ segir Rósa.
Í starfi Rósu felst að vera í miklum samskiptum við bæði starfsfólk og nemendur og hún neitar því ekki að hún þekki andlit margra nemenda skólans. „Ég bý þó ekki yfir sömu hæfileikum og Una og Valla, sem voru hér á skrifstofunni á undan mér, að þekkja nemendur,“ segir Rósa og brosir, en þar vísar hún til Valgerðar K. Guðlaugsdóttur og Unu Aðalbjargar Sigurliðadóttur sem unnu til fjölda ára á skrifstofu VMA. „Í þessu starfi felst að þjónusta og leggja nemendum og starfsmönnum lið með ýmsum hætti. Þetta er fjölbreytt og skemmtilegt starf og engir tveir dagar eru eins,“ segir Rósa en auk hinna daglegu starfa á skrifstofunni er hún verkefnastjóri heimasíðu VMA sem er stór og efnisrík og því er umtalsverð vinna að halda síðunni við og uppfæra.
Rósa Margrét er Eyfirðingur, fædd og uppalin á Litla-Hamri í Eyjafjarðarsveit. Hún var í grunnskóla á Hrafnagili og síðan lá leiðin í MA, þar sem hún var í eitt ár. Þá fór Rósa í VMA og útskrifaðist af félagsfræðibraut skólans í desember 2002. Hún minnist skólaáranna í VMA með hlýju, þar hafi hún eignast marga af sínum bestu vinum sem hún hafi æ síðan verið í sambandi við. „Ég er þakklát fyrir að hafa komið í VMA á sínum tíma, áfangakerfið hentaði mér mjög vel,“ segir Rósa og bætir við að í þá daga hafi nemendur farið í útskriftarferð. Hennar útskriftarhópur um jólin 2002 og útskriftarhópurinn vorið 2002 fóru saman í útskriftarferð til Kanaríeyja. Fararstjórar voru kennararnir Karen Malmquist og Wolfgang Frosti Sahr, sem bæði eru, nítján árum síðar, enn við kennslu í VMA.
Eftir brautskráningu frá VMA segist Rósa ekki hafa haft mótaðar hugmyndir um hvað hún ætlaði að verða þegar hún yrði stór. Hún ákvað að taka sér hlé frá námi og nýtti tímann til ferðalaga, var m.a. í þrjá mánuði á Spáni.
Haustið 2003 innritaðist Rósa svo í nám í þjóðfræði í HÍ. Eftir á að hyggja segir hún að sú ákvörðun hafi kannski ekki komið á óvart. Hún hafi á uppvaxtarárunum verið í miklu samneyti við ömmu sína og afa, Tryggva Jónatansson og Rósu Guðnýju Kristinsdóttur, og alist upp í húsi á Litla-Hamri sem var byggt 1920. Hún hafi fengið í æð áhugann á lífi og starfi fólks í gamla daga. „Það er ekki spurning að uppvöxturinn var ráðandi um námsval mitt í Háskóla Íslands. Ég sé ekki eftir því að hafa valið þessa leið, námið var mjög skemmtilegt og gefandi. Í framhaldi af þjóðfræðinni fór ég í mastersnám í HÍ í hagnýtri menningarmiðlun,“ segir Rósa.
Á þessum tíma spurðist Fjallabyggð fyrir um í HÍ hvort einhver nemandi hefði áhuga á að skrá sögu skíðamennsku í sveitarfélaginu. Rósa sló til og sér ekki eftir því. Verkefnið hafi verið sérlega skemmtilegt og gefandi. Sumarið 2008 dvaldi hún í hinu sögufræga Sæbyhúsi á Siglufirði og fékk vinnuaðstöðu í bátahúsi Síldarminjasafnsins. Afrakstur vinnunnar var lokaverkefni hennar í hagnýtri menningarmiðlun og er hún aðgengileg á heimasíðu á netinu. „Þetta var gríðarlega skemmtilegt verkefni. Ég heimsótti fjölda fólks til þess að fá upplýsingar, sem var mjög gaman,“ rifjar Rósa upp.
Nokkrum mánuðum síðar bauðst Rósu starf á Síldarminjasafninu á Siglufirði. Hún var m.a. fagstjóri skráningar en gekk í öll þau verk sem þurfti að sinna; að taka á móti gestum og leiðsegja um safnið o.s.frv. Einnig tók hún fyrir safnið viðtöl við fólk um síldarárin. Á Síldarminjasafninu starfaði Rósa um þriggja ára skeið. „Ég kunni mjög vel við mig á Siglufirði, þetta er fallegt byggðarlag og fólkið þar tók mér afskaplega vel,“ segir Rósa.
Í önnur þrjú ár starfaði Rósa sem fulltrúi nemendaskrár við Háskólann á Akureyri – 2014-2017 en þá lá leiðin í VMA. „Þegar ég kom í skólann fimmtán árum eftir að ég útskrifaðist héðan fannst mér eins og ég væri komin aftur heim. Þetta er góður vinnustaður og hér er góður andi,“ segir Rósa Margrét Húnadóttir.