Fasteignaumsjón er fjölbreytt starf
Jónas Steingrímsson og Dragan Pavlíca eru umsjónarmenn fasteigna VMA. Dragan hefur unnið undanfarin ár við hlið Hafbergs Svanssonar við húsvörslu í VMA en Hafberg lét af störfum síðastliðið vor og var Jónas Steingrímsson ráðinn í hans stað.
Jónas segir að sér lítist vel á starfið. Það sé afar fjölbreytt enda ekki við öðru að búast á jafn stórum og fjölmennum vinnustað og VMA. „Dragan þekkir starfið út og inn og hefur hjálpað mér að setja mig inn í málin,“ segir Jónas.
Dagurinn hefst snemma hjá umsjónarmönnum fasteigna, þeir skipta með sér vöktunum, fyrri vaktin hefst fyrir klukkan sjö á morgnana þegar skólahúsin eru opnuð og hún er til þrjú á daginn. Seinni vaktin er frá kl. 14 til 22 á kvöldin.
Jónas er lærður húsgagnasmiður frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1984 og meistarabréf fékk hann þremur árum síðar. Jónas tók tvö fyrstu ár námsins í Iðnskólanum á Akureyri en þurfti að taka síðasta námsárið syðra. „Ég var í innréttingasmíði hjá Valsmíði hér á Akureyri í ellefu ár en starfaði við málun í eitt ár eftir það. Var síðan í þrjú ár í Byggingavörudeild KEA en tók árið 1995 að mér framkvæmdastjórn Félagsstofnunar stúdenta á Akureyri – FÉSTA, sem sér um rekstur stúdentagarðanna,“ segir Jónas. Samhliða stækkun Háskólans á Akureyri var stúdentaíbúðunum fjölgað, fyrst voru þær eingöngu í Útsteini og við Klettastíg en árið 2000 bættust við íbúðir við Drekagil, fjórum árum síðar við Tröllagil og loks árið 2008 við Kjalarsíðu. Rekstur FÉSTA tekur að vonum til fasteignaumsýslu og því er fjölmargt í fasteignaumsjón VMA Jónasi kunnuglegt. Hann segir að mannleg samskipti séu stór þáttur í fasteignauumsjón – mikilvægt sé að vinna hlutina vel með starfsfóki og nemendum. Í mörg horn sé að líta í stóru skólahúsnæði eins og VMA og margt smátt og stundum stórt geti farið úrskeiðis. Úr mörgu geti hann og Dragan leyst en ef um viðameiri viðgerðir og viðhald sé að ræða sé leitað til iðnaðarmanna og verktaka utan skólans. Þetta utanumhald segist Jónas þekkja vel frá starfstíma sínum hjá FÉSTA en þar starfaði hann í 23 ár, hætti störfum þar 2019 og fór þá ásamt fleirum í gistihúsarekstur á Akureyri. En aftur er Jónas kominn í fasteignaumsjón – nú í VMA. „Það má kannski lýsa þessu starfi sem „maðurinn á bak við tjöldin“. Ýmislegt í starfinu er ekki mjög sýnilegt, t.d. eftirlit með loftræsti- og vatnskerfum í skólanum og hér er líka umfangsmikið öryggiskerfi. Það segir sína sögu um umfangið að í skólanum eru nítján loftræstikerfi og ef eitthvað fer úrskeiðis fáum við skilaboð í símana okkar. Við erum því á bakvakt og við öllu búnir ef eitthvað gerist,“ segir Jónas Steingrímsson.