Fjölbreyttur akur myndlistar
Eins og vera ber má sjá fullt af áhugaverðum myndverkum í rými listnáms- og hönnunarbrautar á efri hæð VMA – yfir norðurinnganginum – afrakstur vinnu nemenda á síðustu vikum. Fjölbreytnin er mikil og listin er af ýmsum toga.
Eitt af því sem nemendur glíma við er þrívíddarteikning. Virðist nokkuð flókinn galdur en æfingin skapar meistarann í þessu, eins og öðru. Hallgrímur Ingólfsson kennari tók þessar myndir á dögunum af nemendum sínum glíma við þrívíddina.
Nokkrar af þeim myndum sem gefur að líta í rými listnáms- og hönnunarbrautar unnu nemendur í listasögu í anda Frakkans Georges Seurat sem skráði sig á spjöld listasögunnar fyrir að vinna myndverk sín með punktum. Víst er að þessi vnnuaðferð, sem var oftast kölluð pointilismi, var afar tímafrek og það mun hafa tekið Seurat um tvö ár – 1884-1886 - að vinna eitt af sínum þekktustu verkum, Sunnudagssíðdegi á eyjunni La Grand Jette. Verkið er engin smásmíði, 207,6 cm x 308 cm.
Margir fleiri snillingar listasögunnar tileinkuðu sér þessa tegund málaralistar. Þessa sjálfsmynd vann sá mikli meistari, Vincent van Gogh, í anda pointilismans árið 1887.