Fara í efni

Fjölmennur og frísklegur framboðsfundur í Gryfjunni

Framboðsfundurinn í dag var fjölmennur og í alla staði mjög vel heppnaður.
Framboðsfundurinn í dag var fjölmennur og í alla staði mjög vel heppnaður.

Í dag – milli kl. 10 og 11 – var haldinn framboðsfundur í Gryfjunni þar sem fulltrúar allra þeirra flokka sem bjóða fram í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 30. nóvember nk. kynntu sig og svöruðu spurningum. Fundurinn tókst ljómandi vel, var upplýsandi, fjörugur og afar vel sóttur. Það verða örugglega ekki margir framboðsfundir í kjördæminu fyrir þessar kosningar fjölmennari en fundurinn í Gryfjunni í dag!

Fulltrúar flokkanna á fundinum voru:

B – Framsóknarflokkurinn – Skúli Bragi Geirdal (4. sæti NA)
C – Viðreisn – Lovísa Oktovía Eyvindsdóttir (3. sæti NA)
D – Sjálfstæðisflokkur – Jón Þór Kristjánsson (4. sæti NA)
F – Flokkur fólksins – Katrín Sif Árnadóttir (2. sæti NA)
J - Sósíalistaflokkur Íslands – Ari Orrason (2. sæti NA)
L – Lýðræðisflokkurinn – samtök um sjálfsákvörðunarrétt – Bergvin Bessason (3. sæti NA)
M – Miðflokkurinn – Inga Dís Sigurðardóttir (4. sæti NA)
P – Píratar – Theodór Ingi Ólafsson (1. sæti NA)
S - Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands – Logi Már Einarsson (1. sæti NA)
V – Vinstrihreyfingin – grænt framboð - Klara Mist Olsen Pálsdóttir (4. sæti NA)

Eins og vera ber á framboðsfundum bar margt á góma. Fyrst kynntu frambjóðendur sig og fyrir hvað flokkar þeirra standa, því næst voru bornar upp 20 spurningar um allt milli himins og jarðar þar sem frambjóðendur svöruðu með annað hvort nei eða já. Síðan tóku við spurningar fundarmanna úr sal og var þeim beint til ákveðinna frambjóðenda. Spurningarnar voru fjölbreyttar og gaman að sjá hversu margt og ólíkir þættir brenna á ungum kjósendum. Í lok fundarins fengu fulltrúar flokkanna hálfa mínútu hver til þess að skýra út af hverju fundarmenn skyldu greiða þeim atkvæði.

Fundarstjóri var Guðmar Gísli Þrastarson, ritari Þórdunu, og ber að hrósa honum fyrir góða og röggsama fundarstjórn.

Fulltrúum flokkanna eru færðar kærar þakkir fyrir að koma í VMA í dag og kynna sín stefnumál.

Á morgun, fimmtudag, í beinu framhaldi af framboðsfundinum í dag, verða svokallaðar Skuggakosningar í Gryfjunni, þar sem nemendum gefst kostur á að greiða atkvæði, eins og um væri að ræða alvöru þingkosningar. En stóri kjördagurinn er síðan auðvitað að rúmri viku liðinni, laugardaginn 30. nóvember.