Fjölþjóðlegt samfélag í VMA
Á hverjum vetri eru nemendur af erlendu bergi brotnir í Verkmenntaskólanum eins og öðrum skólum á Íslandi. Þar af eru jafnan nokkrir skiptinemar sem dvelja á Akureyri til nokkurra mánuða og eru í framhaldsskóla á meðan á dvöl þeirra stendur. Þessa önn eru fjórir skiptinemar í VMA; tveir frá Ítalíu, einn frá Kína og einn frá Frakklandi.
Það er afar áhugavert að kynnast ólíkum menningarheimum og þessir erlendu nemendur eru duglegir að segja frá menningu og venjum í þeirra heimalöndum. Óhætt er að segja að þessir nemendur auðgi skólasamfélagið og gefi því nýja vídd.
Það segir sína sögu um fjölbreytileikann að á undanförnum sex árum hafa erlendir nemendur í VMA komið frá 32 löndum, í það minnsta. Þessi listi er ekki tæmandi: Albaníu, Azerbaijan, Bandaríkjunum, Brasilíu, Búlgaríu, Danmörku, Egyptalandi, Eistlandi, Englandi, Færeyjum, Filippseyjum, Frakklandi, Grænlandi, Hvíta-Rússlandi, Ítalíu, Japan, Kanada, Kína, Króatíu, Lettlandi, Litháen, Noregi, Perú, Póllandi, Portúgal, Rúmeníu, Serbíu, Spáni, Svíþjóð, Sýrlandi, Tælandi og Úkraínu.
Þessa dagana hangir uppi veggsspjald á hurð bókasafns VMA þar sem nokkrir erlendir nemendur í skólanum skrifuðu á móðurmáli sínu "Velkomin á bókasafnið". Hér má sjá þessa setningu á sjö tungumálum.