Fjórir VMA-nemar fengu styrk úr Hvatningarsjóði Kviku
Fjórir af átta iðnnemum sem fengu úthlutað styrk úr Hvatningarsjóði Kviku fyrir árið 2019/2020 eru nemendur í VMA – þrír í vélstjórn og einn í grunndeild rafiðna. Fimm milljónir króna komu til úthlutunar. Styrkina afhentu Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins.
Þessir fjórir styrkþegar úr VMA eru: Þóra Kolbrún Jóhannsdóttir, nemi í vélstjórn (1 milljón króna), Lára Guðnadóttir, nemi í vélstjórn (500 þúsund kr.), Örn Arnarson, nemi í vélstjórn (500 þúsund kr.) og Vala Alvilde Berg, nemi í grunndeild rafiðna (500 þúsund kr.). Vélstjórnarnemarnir eru allir á þriðja ári, Þóra Kolbrún er úr Eyjafjarðarsveit en Lára og Örn eru bæði Austfirðingar. Vala Alvilde er á þriðju önn í grunndeild rafiðna, hún er frá Akureyri.
Hvatningarsjóðurinn er samstarfsverkefni Kviku og Samtaka iðnaðarins sem hefur það að markmiði að efla umræðu og vitund um mikilvægi iðn- og starfsnáms og þýðingu starfa sem því tengjast fyrir íslenskt atvinnulíf. Þetta er í annað skiptið sem styrkir eru veittir úr sjóðnum. Á síðastliðnu ári, þegar styrkir voru í fyrsta skipti veittir úr sjóðnum, voru fjórir af styrkhöfum nemendur í VMA. Því hafa átta nemendur úr Verkmenntaskólanum fengið úthlutað styrkjum úr Hvatningarsjóði Kviku.
Marinó Örn Tryggvason, bankastjóri Kviku banka, lét þess getið þegar styrkirnir voru afhentir að bankinn liti svo á að hann sé mikilvægur hluti af því samfélagi sem hann starfi í og beri sem slíkur ábyrgð. Skortur sé á iðnmenntuðu fólki og sé sá skortur víða orðinn hamlandi fyrir starfsemi fyrirtækja. Vegna þessa hafi bankinn í fyrra sett á laggirnar hvatningarsjóð fyrir iðnnema með það fyrir augum að styrkja ímynd iðnnáms og starfa sem því tengjast og efla áhuga og vitund um mikilvægi iðnnáms.
Þessar myndir frá úthlutuninni eru fengnar af vef Samtaka iðnaðarins.