Flaggað íslenskri tungu til heiðurs
Í tilefni af degi íslenskrar tungu, sem haldinn var hátíðlegur um allt land í gær, var íslenska fánanum flaggað við VMA, eins og vera ber, en frá árinu 2008 hefur þessi dagur verið opinber fánadagur og skal flaggað við opinberar stofnanir í landinu. Auk þess eru landsmenn hvattir til þess að draga íslenska fánann að hún á degi íslenskrar tungu.
Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur undangengin tuttugu ár á fæðingardegi þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar, en hann fæddist 16. nóvember 1807 og lést 1845, aðeins 38 ára gamall. Ríkisstjórn Íslands ákvað haustið 1995 að 16. nóvember ár hvert yrði dagur íslenskrar tungu og hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við tunguna. Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu hennar og gildi fyrir þjóðarvitund og menningu landsins.
Á degi íslenskrar tungu í gær afhenti mennta- og menningarmálaráðherra í athöfn í Hörpu í Reykjavík árlegar viðurkeningar til fólks sem þykir hafa með starfi sínu hlúð að tungunni og haldið henni á lofti. Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2016 komu í hlut Sigurður Pálssonar rithöfundar. Þá hlaut Ævar Þór Benediktsson - Ævar vísindamaður - sérstaka viðurkenningu í tilefni dagsins fyrir starf sitt í þágu íslenskrar tungu.
Við sama tækifæri opnaði forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, nýja vefgátt Árnastofnunar – malid.is, sem er hreinn fjársjóður upplýsinga um íslenskt mál og er full ástæða til að hvetja nemendur á öllum skólastigum til að nýta sér þessa upplýsingaveitu.
Á tímum netvæðingar, snjallsíma og tækni af ýmsum toga þykir meiri ástæða en nokkru sinni fyrr til að vekja athygli og áhuga ungs fólks á íslensku máli, enda verða áhrif t.d. ensku æ sterkari með hverju árinu.