Flottur árangur nemenda VMA á Íslandsmóti iðn- og verkgreina
Fimmtán nemendur frá VMA tóku þátt í Íslandsmóti iðn- og verkgreina í Laugardalshöllinni, sem lauk sl. laugardag. Árangur þeirra var stórgóður og komu þeir heim með gull-, silfur- og bronsverðlaun. Sigurinn var tvöfaldur í rafeindavirkjun, Íslandsmeistari varð Almar Daði Björnsson og í öðru sæti Baldur Þór Jónasson, Viktor Ólafsson vann til silfurverðlauna í rafvirkjun, Rafnar Berg Agnarsson varð í öðru sæti í hönnun vökvakerfa og Andri Már Ólafsson varð einnig í öðru sæti í málmsuðu. Þá varð Íris Birna Kristinsdóttir í þriðja sæti í heildarkeppninni í hársnyrtiiðn og Magnea Elinóra Pjetursdóttir vann til silfurverðlauna í fantasíugreiðslu.
Eins og fram hefur komið var samhliða Íslandsmótinu efnt til kynningar á framhaldsskólum landsins í Laugardalshöllinni og voru VMA, MA og Heimavist MA og VMA með sameiginlegan kynningarbás. Kynningin tókst með miklum ágætum og lögðu margir leið sína í Laugardalshöllina, bæði til þess að fylgjast með nemendum keppa í hinum ýmsu iðngreinum og fá upplýsingar um námsframboð framhaldsskólanna.
Hér eru myndir sem voru teknar af keppendum í hársnyrtiiðn. Þessi mynd var tekin af keppendum í málmsuðu og hönnun vökvakerfa ásamt Kristjáni Kristinssyni kennara. Hér er Jón Tryggvi Alfreðsson að keppa í trésmíði og hér eru þeir fjórmenningar frá VMA sem kepptu í málmsmíði. Andri Már Ólafsson, sem vann til silfurverðlauna, er lengst til vinstri.
Alls var keppt í 27 greinum á Íslandsmótinu. VMA sendi samtals fimmtán keppendur í hársnyrtiiðn, vélstjórnargreinar, málmsuðu, rafeindavirkjun, rafvirkjun og trésmíði.
Hönnun vökvakerfa
1 Halldór Almar Halldórsson, Tækniskólinn
2 Rafnar Berg Agnarsson, VMA
3 Sveinn Bergsson, Fjölbrautaskóli Suðurlands
Hársnyrtiiðn
1 Hildur Ösp Gunnarsdóttir, Hárakademían
2 Laufey Guðrún Vilhjálmsdóttir, Tækniskólinn
3 Íris Birna Kristinsdóttir, VMA
Magnea Elinóra varð í 2. sæti í fantasíugreiðslu sem er aukakeppnisgrein í hársnyrtiiðn.
Rafvirkjun
1 Przemyslaw Patryk Slota, Verkmenntaskóli Austurlands
2 Viktor Ólason, VMA
2 Maríanna Ragna Guðnadóttir, Tækniskólinn
Rafeindavirkjun
1 Almar Daði Björnsson, VMA
2 Baldur Þór Jónasson, VMA
3 Grétar Smári Hilmarsson, Tækniskólinn
Málmsuða
1 Jón Gylfi Jónsson, Fjölbrautaskóli Norðulands Vestra
2 Andri Már Ólafsson, VMA
3 Bartlomiej Lacek, Fjölbrautaskóli Suðurlands
Strákarnir í rafeindavirkjun og rafvirkjun sem unnu til gull- og silfurverðlauna í Íslandsmótinu - Almar Daði Björnsson varð Íslandsmeistari og Baldur Þór Jónasson varð í öðru sæti í rafeindavirkjun og Viktor Ólafsson varð í öðru sæti í rafvirkjun - eru að vonum ánægðir með góðan árangur á Íslandsmótinu. Þeir eru sammála um að keppnin hafi verið krefjandi og afar lærdómsrík og þeir hafi lært fullt af henni. Íslandsmeistarinn Almar Daði sagðist ekki hafa verið fullkomlega sáttur við sig á lokaspretti keppninnar og álitið að hann væri að klúðra fyrirliggjandi verkefni, sem fólst í því að setja saman módel af rafmagnsbíl og setja á hann viðbótarbúnað, og því hafi það komið honum skemmtilega á óvart þegar fyrir lá að hann hafi sigrað keppnina.
Allir eiga þeir Almar Daði, Baldur Þór og Viktor það sameiginlegt að hafa svipuð markmið um framtíðina, þeir stefna allir á háskólanám að loknu sínu iðnnámi og stúdentsprófi frá VMA. Viktor hefur þegar lokið sveinsprófi í rafvirkjun og hann hyggst ljúka stúdentsprófi í vor. Þetta gerir hann á fjórum árum. Að námi loknu segist hann hafa áhuga á því að fara í rafmagnstæknifræði í Danmörku. Almar Daði og Baldur Þór eru komnir vel á veg með nám sitt í rafeindavirkjun í VMA og eru ákveðnir í því að halda áfram námi að því loknu, en hafa ekki ákveðið á þessu stigi málsins hvert leiðin liggur.