Forvarnadagurinn í dag
Í dag verður Forvarnadagurinn haldinn í fjórtánda skipti um allt land. Í VMA verður dagsins minnst í Gryfjunni í löngufrímínútum þar sem skólinn býður nemendum og starfsfólki upp á köku í tilefni dagsins. Einnig er fjallað um forvarnir og markmið með þessum degi í lífsleiknitímum hjá nýnemum.
Hér eru myndir sem Valgerður Dögg tók í Gryfjunni á forvarnadaginn af nemendum og starfsmönnum að fá sér kökubita.
Forvarnadagurinn er ár hvert haldinn að frumkvæði embættis forseta Íslands. Að undirbúningi dagsins koma auk forsetans, fulltrúar embættis landlæknis, Sambands Íslenskra sveitarfélaga, Rannsóknar og greiningar, Samtaka félaga í forvörnum, Reykjavíkurborgar, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Ungmennafélags Íslands og Bandalags íslenskra skáta.
Eitt af markmiðum með Forvarnadeginum er að vekja athygli á gildi þess að börn og ungmenni eyði tíma með fjölskyldunni, taki þátt í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og seinki því að neyta áfengis, eða sleppi því.
Í tengslum við daginn er efnt til stuttmyndasamkeppni meðal nemenda í 9. bekk grunnskóla og fyrsta bekk í framhaldsskóla.