Forvarnardagurinn 2017 í VMA á morgun
Forvarnardagurinn 2017 er á morgun, 4. október, og verður hann að sjálfsögðu hafður í heiðri í VMA. Í löngufrímínútunum á morgun, sem hefjast kl. 09:30, mun Valgerður Dögg Jónsdóttir kennari og forvarnarfulltrúi VMA ávarpa nemendur og síðan verður tónlistaratriði. Eftir hádegið, kl. 13.15, verður Hjalti Jónsson sálfræðingur með erindi í M-01 og kl. 14:00 býður Árný Brynjólfsdóttir upp á jóga í M-11.
Forvarnardagurinn í ár er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu. Hér eru frekari upplýsingar um forvarnarmál.
Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.
Íslenskar rannsóknir sýna að þeir unglingar sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna. Að sama skapi sýna niðurstöður að mun ólíklegra sé að ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf falli fyrir fíkniefnum. Í þriðja lagi sýna rannsóknirnar fram á að því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau neyti síðar fíkniefna.
Valgerður Dögg Jónsdóttir forvarnarfulltrúi VMA hefur auk kennslu sinnt þessu starfi undanfarin ár. Auk þess að halda utan um forvarnarstarf í skólanum hefur hún umsjón með verkefnum eins og „Heilsueflandi framhaldsskóla“ og „Hjólað í vinnuna“.
Valgerður Dögg er með skrifstofu í kennaraálmunni og þar geta nemendur leitað til hennar á viðtalstíma á þriðjudögum kl. 10:00-11:00 og fimmtudögum kl. 10:00-10:40 – eða bara gefið sig á tal við hana á göngum skólans. „Nemendur geta alltaf leitað til mín og ég hvet þá til þess að gera það. Ég starfa sem forvarnarfulltrúi fyrir nemendur, til þess að tala við þá og leiðbeina þeim ef þeir eru í vanda staddir,“ segir Valgerður Dögg og bætir við að hún taki þátt í teymi innan skólans um þessi mál – sem hittist að jafnaði einu sinni í viku - ásamt skólahjúkrunarfræðingi og námsráðgjöfum.
Valgerður Dögg segir engan vafa á að forvarnarstarfi miði almennt í rétta átt á Íslandi sem birtist m.a. í því að ungt fólk ánetjist vímuefnum síðar en fyrir nokkrum árum. Hins vegar segir hún að á sama tíma og áfengisneysla hafi dregist saman hjá ungu fólki hafi neysla kannabisefna aukist, sem sé verulegt áhyggjuefni.
Hverskonar fræðsla um vímuefni er að sögn Valgerðar Daggar afar mikilvæg, bæði fyrir nemendur og aðstandendur þeirra. Hún segist stefna að því að innan tíðar verði foreldrum og aðstandendum nemenda í VMA boðið upp á fræðslufund með fulltrúum lögreglunnar um þessi mál.
Reykingar hafa verið á undanhaldi á undanförnum árum og hefur Íslendingum almennt orðið vel ágengt í þeim efnum. Hins vegar hefur hin svokallaða rafretta sótt í sig veðrið. Valgerður Dögg segir þurfa miklu meiri fræðslu um skaðsemi rafrettunnar og því miður sé það svo að sumir líti svo á að henni fylgi enginn skaði, sem sé mikill misskilningur. Það sama eigi við rafrettur og sígarettur og annað tóbak að stranglega sé bannað að hafa þær uppi á göngum skólans. Skilgreint reyksvæði sé fyrir tóbaksneytendur utan dyra á lóð skólans og það svæði sé einnig ætlað rafrettuneytendum.