Frá Enniskillen til Akureyrar
Jón Iain Peter Matchett er einn af enskukennurum við VMA. Þetta er þriðja starfsár hans við VMA og segist hann kunna því vel að kenna við skólann, starfsandinn sé góður og hann njóti þess að vinna með ungu fólki.
Iain fæddist árið 1965 og ólst upp í Enniskillen á Norður-Írlandi, sem er bær skammt frá landamærunum að írska lýðveldinu, fámennari bær en Akureyri. Hann upplifði á sínum yngri árum ýmislegt er tengist langvarandi erjum kaþólikka og mótmælanda á Norður-Írlandi sem kostuðu mörg mannslíf. Ófriðarins á Norður-Írlandi segist Iain muna vel eftir. „Já, það geri ég. Í þrígang varð ég vitni að bílasprengju og frænka mín var ein þeirra fjölmörgu á Norður-Írlandi sem lét lífið í slíkri sprengju. Þetta var erfiður tími fyrir alla. Við þurftum alltaf að hafa varann á og passa að vera ekki á ferðinni langt fram á kvöld. Við vissum aldrei hvað gæti gerst,“ rifjar Iain upp.
Ungur að árum fór Iain til Englands í atvinnuleit en erfitt var að fá vinnu og úr varð að hann fór í skóla og nam rafeindafræði í eitt ár. Móðir Iains flutti einnig til Englands en vegna veikinda hennar fluttu þau saman aftur til Enniskillen á Norður-Írlandi og þar hélt Iain áfram verknámi. Hann tók fjölda námskeiða í ýmsum greinum, t.d. rafvirkjun, pípulögnum og kælitækni. Síðar fór hann til frekara náms í rafeindafræði í útjaðri Belfast og í kjölfarið starfaði hann í um tvö ár í flugvélaverksmiðju þar sem m.a. var unnið að smíði á hlutum í Fokker 100 flugvélar.
Á Norður-Írlandi fór Iain að starfa með söfnuði sjöunda dags aðventista. Málin æxluðust á þann veg að einn góðan veðurdag ákvað Iain að fara til Íslands og vinna sem sjálfboðaliði við Hlíðardalsskóla í Ölfusi, sem söfnuðurinn á Íslandi rak. „Þetta var árið 1988 og ég ætlaði að vera í níu mánuði. En það breyttist. Ég kynntist stúlku sem ég síðar giftist og saman eignuðumst við þrjú börn. Ísland er því mitt heimaland og tengsl mín við Norður-Írland eru lítil, þangað fór ég síðast árið 2011,“ segir Iain. Þau ár sem hann hefur búið hér á landi hefur hann tekið þátt í starfi sjöunda dags aðventista, á Akureyri segir hann að safnaðarfólk hittist á laugardögum í Gamla Lundi.
Árið 1990 fór Iain til Englands og innritaðist í guðfræðinám. Því lauk hann á fjórum árum og tók síðan tveggja ára nám í uppeldis- og kennslufræði. Aftur flutti Iain til Íslands og hafði hug á því að starfa áfram við Hlíðardalsskóla. Af því varð þó ekki því skólanum var lokað árið 1996. Þess í stað gerðist hann grunnskólakennari á Stokkseyri og Eyrarbakka í nokkur ár. Í einn vetur kenndi hann í MK og síðan lá leiðin norður í land. Í áratug kenndi Iain á Laugum í Reykjadal. Þaðan fór hann til Akureyrar og var í afleysingum í MA í tvo vetur og síðan lá leiðin upp á Eyrarlandsholtið í VMA. „Ég hef ánægju af því að kenna krökkunum ensku. Ég kann því mun betur að vera með nemendum í kennslustofunni, en vegna covid 19 höfum við þurft að kenna enskuna að hluta í fjarnámi,“ segir Jón Iain Peter Matchett.