Fræðsla Ástráðs um kynlíf
Til margra ára hafa nemendur á öðru ári í læknisfræði heimsótt framhaldsskóla landsins og frætt og/eða átt samtal við nemendur um kynlíf frá öllum hliðum. Þetta forvarnastarf læknanema, sem þeir kalla Ástráð, er unnið í sjálfboðavinnu en styrkt af nokkrum fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum.
Í þessari viku heimsóttu læknanemarnir VMA og hittu nýnema í tíma í lífsleikni. Þar var rætt frá ýmsum hliðum um kynlíf og unglingaheilbrgiði.
„Þetta samstarf hefur verið í mörg undanfarin ár og hefur gefist afar vel. Við kennararnir vitum ekkert hvað fer fram í þessum tímum því við sitjum þá ekki. Það er því ákveðin dulúð yfir fyrirlestrum læknanemanna og það samtal sem þeir eiga við nemendur er trúnaðarmál á milli læknanemanna og nemenda. Þessir fyrirlestrar eru fastur liður í lífsleikninámi nemenda okkar á fyrsta ári og ómissandi hluti námsins á hverjum vetri,“ segir Harpa Jörundardóttir, kennslustjóri almennrar brautar VMA. Fyrirlestrar Ástráðs voru annars vegar sl. þriðjudag og hins vegar í gær, fimmtudag. Til þess að allir nýnemar ættu þess kost að sitja fyrirlestra Ástráðs gáfu íþróttakennarar eftir tíma sína sl. þriðjudag og vill Harpa þakka þeim kærlega fyrir það.