Framboðsfundur vegna alþingiskosninganna nk. miðvikudag í VMA
Hratt flýgur stund, eins og stundum er sagt. Nú er einungis eftir hálf fjórða vika af kennslu á haustönn. En það á ýmislegt eftir að gerast hér í skólanum á þessum tíma og einnig í samfélaginu því það verða kosningar til Alþingis laugardaginn 30. nóvember og sem endranær verður kjörstaður á Akureyri hér í VMA.
Eins og oft áður tekur VMA þátt í verkefninu Ég kýs, sem í stórum dráttum felst í því efla lýðræðisvitund framhaldsskólanema. Liður í þessu átaki er framboðsfundur í Gryfjunni nk. miðvikudag, 20. nóvember, kl. 10-11 sem verður í umsjón nemendafélagsins Þórdunu. Þeim framboðum sem bjóða fram til Alþingis hefur verið boðið að taka þátt í fundinum. Fulltrúum framboðanna gefst kostur á að kynna sínar áherslur fyrir þessar kosningar og síðan verður opnað fyrir fyrirspurnir fundargesta.
Næstkomandi fimmtudag, 21. nóvember, verða síðan skuggakosningar í skólanum þar sem nemendumr geta greitt atkvæði, eins og um alvöru kosningar væri að ræða. Þetta hefur áður verið gert og tekist mjög vel. Ekki bara í VMA því skuggakosningar eru í framhaldsskólum um allt land. Niðurstöður þeirra verða síðan að líkindum kynntar áður en alvöru tölur berast úr kjördæmunum um allt land að kvöldi kjördags. Gaman verður að sjá hvort samhljómur verður með niðurstöðum atkvæðagreiðslu framhaldsskólanema og útkomu úr alþingiskosningunum 30. nóvember.
Hér má sjá hvernig framhaldsskólanemar greiddu atkvæði í síðustu alþingiskosningum haustið 2021.
Hér er umfjöllun um framboðsfund í Gryfjunni 8. september 2021. Eins og sjá má voru andlitsgrímurnar staðalbúnaður á þessum Covid-tíma. Og hér er sagt frá skuggakosningum í VMA 9. september 2021.
Þeir flokkar sem bjóða fram til Alþingis að þessu sinni eru:
B – Framsóknarflokkurinn
C – Viðreisn
D – Sjálfstæðisflokkur
F – Flokkur fólksins
J - Sósíalistaflokkur Íslands
L – Lýðræðisflokkurinn – samtök um sjálfsákvörðunarrétt
M – Miðflokkurinn
P – Píratar
S - Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands
V – Vinstrihreyfingin – grænt framboð
Y – Ábyrg framtíð.
Tíu af þessum ellefu flokkum bjóða fram í öllum kjördæmum en Y-listi Ábyrgrar framtíðar býður einungis fram í einu kjördæmi, Reykjavík norður.