Fróðleg ferð nemenda á listnámsbraut til Reykjavíkur
Á dögunum fór milli tuttugu og þrjátíu nemenda hópur af listnáms- og hönnunarbraut VMA – auk þriggja kennara - í fjögurra daga kynnisferð til Reykjavíkur þar sem m.a. voru skoðaðir nokkrir skólar. Guðbjörg Helga Aðalsteinsdóttir, nemandi á fyrsta ári á textílkjörsviði listnáms- og hönnunarbrautar, segir ferðina hafa verið mjög lærdómsríka og opnað augu hennar og samnemenda hennar fyrir því hversu margir og ólíkir möguleikar standa nemendum til boða í framhaldi af námi í VMA.
Hópurinn heimsótti Kvikmyndaskóla Íslands, Listaháskólann, Myndlistaskólann í Reykjavík, Tækniskólann og Margmiðlunarskólann og einnig fór hann í Þjóðminjasafnið.
„Þetta var frábær ferð og lærdómsrík. Það var mjög áhugavert fyrir okkur að kynnast því hversu margar leiðir okkur eru færar í frekara námi eftir að hafa lokið námi okkar í VMA,“ sagði Guðbjörg Helga Aðalsteinsdóttir. Hér má sjá nokkrar myndir sem hún tók í ferðinni.