Fróðlegur fyrirlestur um frágang húsa
Síðastliðinn miðvikudag hélt Egill Erlingsson frá fyrirtækinu Redder byggingalausnum í Reykjavík afar fróðlegan fyrirlestur fyrir nemendur og kennara byggingadeildar VMA þar sem hann sagði frá ýmsum nýjungum í frágangi húsa hvað varðar bæði þök og veggi.
Óteljandi dæmi er um alvarlega galla í frágangi á bæði þökum og veggjum húsa sem leiðir til þess að rakinn fær að hreiðra um sig og með tíð og tíma nær myglan að skjóta rótum með tilheyrandi skaða fyrir heilsu fólks og miklum kostnaði. Dæmi eru um að hús hafi hreinlega verið dæmd ónýt vegna myglu. Það er því gríðarlega mikilvægt að frágangur sé sem vandaðastur og nýjar byggingaraðferðir og ný efni hafa rutt sér til rúms. Um þetta fjallaði Egill í fyrirlestri sínum og ræddi m.a. vítt og breitt um kítti, gluggaborða, öndunardúka, veggdúka, þakdúka, rakasperru, öndunarborða og límbönd fyrir bæði þök og veggi. Þakdúkana er farið að nota í auknum mæli í stað þakpappa og sýndi Egill nýjustu lausnir í þeim efnum.
Egill er lærður smiður en hefur á síðustu árum verið með ráðgjöf um þessi mál og rekur fyrirtækið Redder byggingalausnir sem selur m.a. framangreindar vörur frá Þýskalandi.
Að fyrirlestri Egils loknum þakkaði Helgi Valur Harðarson, brautastjóri byggingadeildar, Agli fyrir fróðlegan fyrirlestur og upplýsti að Redder byggingalausnir í samstarfi við sína birgja hefði ákveðið að leggja byggingadeildinni til ýmis efni sem fyrirtækið flytur inn og selur til þess að nota í sumarhúsið sem húsasmíðanemar eru nú með í smíðum norðan við húsnæði byggingadeildar. Fyrir þennan rausnarskap Redder þakkaði Helgi Valur alveg sérstaklega.
Þá vill Helgi Valur þakka Hilmari Friðjónssyni, Sigurði Boga Ólafssyni og Hákoni Loga Árnasyni fyrir þeirra vinnu við að taka fyrirlestur Egils upp en ætlunin er að nota hann síðar í kennslu.