Fullgilt kokkanám í fyrsta skipti í VMA
Núna á haustönn er í fyrsta skipti kennd á matvælabraut VMA matreiðsla til fullgildra réttinda matreiðslumanna. Til þessa hefur einungis verið heimild fyrir grunndeild í matreiðslu og framreiðslu en eftir áralanga baráttu fékkst loks heimild til þess að ýta úr vör fullgildu kokkanámi í VMA. Í þetta fyrsta skipti sem boðið er upp á slíkt nám í skólanum - og jafnframt í fyrsta skipti sem námið er í boði utan suðvesturhornsins - eru tíu nemendur og eru þeir allir starfandi á veitingahúsum, níu þeirra á Akureyri og einn í Mývatnssveit. Þessir nemendur eru sammála um að óvíst hafi verið hvort þeir hafi farið í þetta nám ef það hefði einungis verið í boði á suðvesturhorninu. Því sé það mikið fagnaðarefni að VMA hafi nú loks fengið leyfi til þess að bjóða upp á það.
Eins og vera ber er námið blanda af bóklegum greinum og verklegri þjálfun. Til þess að geta innritast í slíkt nám þurfa nemendur að hafa starfað á samningi á veitingahúsi að lágmarki í eitt ár en í það heila er áskilinn samningstími 126 vikur eða um tvö og hálft ár. Að þessari önn liðinni verður hlé á matreiðslunáminu þar til næsta haust þegar stefnt er að því að bjóða upp á þriðja bekkinn.
Þegar litið var inn í verklegan tíma verðandi matreiðslumanna núna í vikunni var Valdemar Pálsson, kennari þeirra, að fylgjast með þeim undirbúa matreiðslu á fylltri, úrbeinaðri önd. Nemendur gátu ráðið ferðinni að nokkru leyti og útfært eldamennskuna eftir þeirra höfði. Valdemar segir að í þessum verklegu tímum sé farið í fjölmargt, bæði flókna og einfaldari eldamennsku, allt miði námið að því að nemendur vinni sjálfstætt, eins og þeir hafi gert og komi til með að gera í sinni vinnu á veitingastöðum í framtíðinni.
Sveinn Hólmkelsson er einn af nemendunum tíu. Hann lauk á sínum tíma stúdentsprófi frá MA og síðan lá leiðin í sálfræði í HÍ þaðan sem hann útskrifaðist árið 2014. Sveinn segir að hann hafi ekki haft þá löngum sem til þurfti til þess að læra frekar á því sviði eða starfa sem sálfræðingur. Hins vegar hafi alltaf blundað í honum löngum til þess að gera meira af því að elda, enda hafi hann alla tíð haft gaman af því og starfað við það meðfram MA forðum daga, m.a. á veitingastaðnum Friðriki V á Akureyri og síðar hafi hann sömuleiðis unnið við eldamennsku í Reykjavík og einnig unnið m.a. á bar og í öðrum þjónustustörfum. Núna er hann á samningi á Strikinu á Akureyri og mun fara í svokallað raunfærnimat í gegnum Iðuna/SÍMEY þar sem reynsla hans í gegnum tíðina í eldamennsku og öðrum þjónustustörfum verður metin inn í námið. „Kærasta mín er þjónn og hún ýtti mjög á mig að drífa mig í þetta nám þegar það loksins bauðst hér,“ segir Sveinn. Hann segir það skipta gríðarlega miklu máli að geta tekið námið hér nyrðra, erfitt sé að rífa sig upp með fjölskyldu og fara suður með tilheyrandi kostnaði, m.a. sé húsnæðiskostnaður á höfuðborgarsvæðinu gríðarlega hár. Einnig sé afar mikilvægt fyrir veitingastaðina þar sem hann og aðrir nemendur í matreiðslunáminu starfa að þurfa ekki að sjá á eftir nemendunum suður og missa þá þar með úr vinnu.
Bergvin Stefánsson er þrjátíu og þriggja ára Akureyringur sem hefur starfað við matreiðslu í meira en áratug. Síðustu sex árin hefur hann starfað á 1862 Nordic Bistro í Hofi en hann segir að fyrsti veitingastaðurinn hafi verið Karolína Restaurant árið 2004. Um tíma bjó hann í Reykjavík og starfaði þar hjá veitingaþjónustu, kom síðan aftur norður og fór á samning á Friðriki V. En nú er Bergvin sem sagt starfandi á 1862 Nordic Bistro og sömuleiðis á Nönnu Seafood Restaurant sem var opnaður á dögunum í Hofi. „Þó svo að ég hafi lengi starfað við matreiðslu hefur mig alltaf langað til þess að ljúka þessu námi. Í mínu tilviki hefur það alls ekki gengið upp að fara suður til þess að taka námið og því var það afar kærkomið þegar ákveðið var að bjóða upp á það hér,“ segir Bergvin. Hann segist kunna vel við sig í eldhúsinu, starf matreiðslumannsins krefjist mikillar skipulagningar en það geti vissulega stundum verið stressandi. „Þetta er fjölbreytt starf og oft tekur það á en ég er í eðli mínu spennufíkill,“ segir Bergvin brosandi. Hann segist hafa gaman af því að elda allskonar mat en hiklaust myndi hann setja fisk efst á listann, enda bjóði hann upp á svo marga og áhugaverða möguleika í matreiðslu.