Fulltrúar VMA í FING-verkefni í Sisimut
Í meira en áratug hefur VMA átt í góðu samstarfi við skóla í Noregi, Færeyjum og á Grænlandi – samstarfið hefur verið kallað FING – sem eru upphafsstafir landanna. Verkefnið nýtur stuðnings Nordplus - menntaáætlunar norrænu ráðherranefndarinnar. Nú vinna skólarnir að samstarfsverkefni þar sem grænar lausnir frá ýmsum hliðum eru skoðaðar í kjölinn og ber það á ensku yfirskriftina Green Shift in Education.
Fundur í verkefninu var í Sisimut á vesturströnd Grænlands fyrr í þessum mánuði og fóru á fundinn af hálfu VMA Benedikt Barðason, sem nú er starfandi skólameistari á Laugum og er því í leyfi í vetur frá starfi aðstoðarskólameistara VMA, Hanna Þórey Guðmundsdóttir, sem veitir bókasafni VMA forstöðu, og Sævar Páll Stefánsson kennari í málmiðn- og vélstjórnargreinum. Benedikt er öllum hnútum kunnugur í FING-samstarfinu og hefur tekið þátt í því frá upphafi.
Hinir þrír skólarnir í þessu FING-verkefni eru Vinnuhaskulin í Þórhöfn í Færeyjum, Fagskolen Rogaland í Stavanger í Noregi og Arctic Technology/KTI råstofskolen í Sisimiut á Grænlandi. Upphafsfundurinn í verkefninu var í Kaupmannahöfn 2022 og síðan var aftur fundað í Amsterdam þar sem lagðar voru línur með út á hvað verkefnið myndi ganga. Síðan hafa verið fjarfundir og almennt hittast þátttakendur frá skólunum á fjarfundum á um sex vikna fresti og bera saman bækur sínar. Þann 20. mars á þessu ári var efnt til vefráðstefnu í verkefninu í VMA.
Sem fyrr segir er áherslan í þessu verkefni á sjálfbærni og grænar lausnir í orkumálum og að gera samnorræna kennsluhandbók í grænum fræðum, ef svo má að orði komast. Í Sisimut er áherslan á grænar lausnir í námavinnslu, sem er umtalsvert umfangsmikil á þessu svæði. Jarðhitinn er áherslan í þessu verkefni af hálfu Íslands, Færeyingar hafa verið í stóru þróunarverkefni með orkugjafa eins og metanól og vetni og fleiri lausnir – t.d. vindorku - fyrir skip og í Stavanger er horft til fallorkunnar.
Áfram verður unnið í verkefninu og verður lokafundur í því í Stavanger að tæpu ári liðnu.
Sævar Páll Stefánsson segir í senn afar gagnlegt og fróðlegt að taka þátt í slíku verkefni. Áhugavert sé að sjá hver áhersla nágrannaþjóðanna sé í grænum lausnum, af slíku samstarfi megi fjölmargt læra.
Sem fyrr segir hefur VMA tekið þátt í FING-samstarfinu í ríflega áratug. Eitt og annað hefur verið skrifað um þetta samstarf hér á heimasíðunni - m.a.: