Fundað í VET@work verkefninu í VMA
VMA tekur þátt í evrópsku verkefni, sem er styrkt af Erasmus+ og ber yfirskriftina VET@work og er helsta markmiðið með því að þróa rafræna handbók með leiðbeiningum um með hvaða hætti sé best að standa að samstarfi milli skóla og vinnustaða þegar kemur að þjálfun verknámsnema. Verkefnið, sem er til þriggja ára, hófst á síðasta ári og var þriðji fundurinn af sex í verkefninu í VMA í þessari viku.
Í verkefninu taka þátt bæði fulltrúar skóla og atvinnulífs í fimm löndum; Íslandi, Hollandi, Frakklandi, Finnlandi og Bretlandi. Auk VMA tekur Hársnyrtistofan Medulla þátt í verkefninu af Íslands hálfu, frá Hollandi eru fulltrúar Het Idee og Stichting Welzijn Lelystad, fulltrúar Finna koma frá Axxell Utbildning AB og Raseborgs stad, frá Frakklandi eru fulltrúar frá Nantes Terre Atlantique og loks frá Broadshoulders LTD frá Bretlandi.
Fyrsti fundur í verkefninu var í september 2018, annar fundurinn var í Nantes í Frakklandi sl. vor og þriðji fundurinn var í þessari viku í VMA – hann hófst sl. miðvikudag og lýkur í dag. Næsti fundur í verkefninu verður í Finnlandi í mars á næsta ári.
Af hálfu VMA hafa tekið þátt í verkefninu Hrafnhildur Sigurgeirsdóttir og Harpa Birgisdóttir. Jóhannes Árnason, sem hefur erlend samskipti skólans á sinni könnu, hefur lagt þeim lið í verkefninu. Fulltrúi Hársnyrtistofunnar Medullu er Hulda Hafsteinsdóttir.
VMA hefur áður tekið þátt í evrópsku verkefni þar sem var rætt um samstarf atvinnulífs og skóla og því má segja að þátttaka skólans í VET@work sé rökrétt framhald.
Sem fyrr segir er í þessu verkefni unnið að því að búa til rafræna handbók í því skyni að efla samvinnu skóla og atvinnulífs um vinnustaðanám. Í þessu felst m.a. að horfa til nýstárlegra aðferða til þess að efla vinnustaðanám. Þar sem þátttakendur koma frá fimm löndum deila þeir reynslu frá sínum heimalöndum um vinnustaðanám og þannig verður til dýrmætur reynslubanki sem nýtist öllum.