Fyrirlestur á haustdögum í fyrirlestrarröð Listnámsbrautar VMA og Sjónlistamiðstöðvarinnar
Föstudaginn 9. nóvember kl. 15:00 - 16:00 flytur Elva María Káradóttir fyrirlestur í Verkmenntaskólanum á Akureyri í stofu M01. Eftir
að hafa lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri hóf Elva nám við Esmod tískuskólann í París,
þar sem hún nam bæði herra- og dömusníðagerð í 3 ár. Hún útskrifaðist þaðan sem " Aiguille d' or " eða
gullnálin, fyrir bestu einkunn í sníðagerð.
Eftir námið hóf hún að vinna fyrir Jean Colonna sem ásamt Martin Margiela, Anne Demeulemeester og Helmut Lang höfðu djúp áhrif á
þá stefnu sem tískan tók á tíunda áratugnum. Þá tók við vinna í nokkur ár fyrir japanska fatahönnuðinn
Shinichiro Arakawa sem veitti henni innsýn í japanska sníðagerð. Sá tími sem Elva vann fyrir Arakawa hafði mikil áhrif á hana sem
má sjá í verkum hennar enn í dag.
Eftir þetta vann hún freelance fyrir ýmsa hönnuði um nokkurra ára skeið ásamt því að koma af stað barnafatamerkinu
Pùùki. Síðustu árin áður en Elva flutti aftur heim til Akureyrar vann hún fyrir John Galliano og Ninu Ricci. Meðfram vinnu sinni í
tískuheiminum hefur hún líka starfað bæði fyrir leikhús og óperu.
Í fyrirlestrinum mun Elva fara yfir feril sinn í máli og myndum og skoða stíla þeirra hönnuða sem hún hefur unnið fyrir.
Fyrirlesturinn er hluti af námsefni áfanganna „Listir-Menning“ á listnámsbraut VMA en allir áhugasamir eru hjartanlega velkomnir!
Enginn aðgangseyrir.