Fyrirmynd í námi fullorðinna 2015
Dragan Pavlíca, þjónustuliði í VMA, veitti sl. mánudag viðurkenningu á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem „fyrirmynd 2015 í námi fullorðinna“. Dragan var einn fjögurra einstaklinga víðsvegar um land sem fengu slíka viðurkenningu, en hún er í senn í formi heiðurs, hvatningar og spjaldtölvu. Hann fór á sínum tíma í gegnum raunfærnimat hjá SÍMEY og settist þar síðan á skólabekk og hefur nú tekið upp þráðinn í meistaraskólanum og er að læra að verða málarameistari. SÍMEY tilnefndi Dragan til þessarar viðurkenningar.
Dragan, sem er 48 ára gamall, er Serbi en bjó í Króatíu þegar stríðið braust út í gömlu Júgóslavíu. Fjölskyldan varð að yfirgefa heimili sitt og fékk skjól í flóttamannabúðum í Serbíu, þar sem hún dvaldi í heil átta ár. Árið 2003 kom Dragan og fjölskylda til Akureyrar í hópi 24 serbneskra flóttamanna, sem höfðu allir búið í Króatíu en flúið þaðan. Hér er áhugaverð ritgerð sem Guðrún Kristín Blöndal skrifaði árið 2005 sem lokaritgerð í nútímafræði við HA um komu þessara 24 flóttamanna til Akureyrar árið 2003.
Dragan segir að tíminn í flóttamannabúðunum hafi verið mjög erfiður. „Við hjónin vorum þarna ásamt tveimur sonum okkar og móður minni. Ég óska engum þess að ganga í gegnum þessa reynslu,“ segir Dragan. „Við sóttum árið 1997 um að fara til útlanda en fengum ekki en síðan sóttum við aftur um og þá var niðurstaðan að fara til Íslands. Það var vissulega framandi að koma til Íslands, sannast sagna vissum við mjög lítið um landið áður en við komum. Fljótlega byrjuðum við að læra íslensku frá grunni og það gekk bara nokkuð vel. Eftir eitt ár gat ég lesið aðeins og skrifað en mér fannst erfiðast að tala. Íslenskan er ekki lengur vandamál fyrir mig og konu mína, sem vinnur á elliheimilinu hér, og strákarnir okkar tala málið eins og innfæddir. Annar þeirra, sá yngri, er að ljúka stúdentsprófi frá VMA núna í desember. Móðir mín, sem er núna 67 ára gömul, talar ekki íslenskuna en hún skilur töluvert.“
Dragan segir það aldrei hafa komið til greina að snúa til baka til Króatíu. Hins vegar heimsæki þau annað slagið ættingja og vini, t.d. systur hans, sem líka var flóttamaður frá Króatíu. „Hún býr núna í Serbíu og hefur fengið þar ríkisborgararétt,“ segir Dragan.
Fljótlega eftir að fjölskyldan kom til Akureyrar árið 2003 fékk Dragan vinnu hjá Stefáni Jónssyni, málarameistara. Fimm árum síðar, árið 2008, benti Stefán honumn á að nýta sér þjónustu Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar. „Ég fór í gegnum raunfærnimat hjá SÍMEY og fór síðan að læra að verða málari. Tók bókleg fög hjá SÍMEY en verkleg fög hér í VMA. Úr þessu námi útskrifaðist ég með sveinspróf í málaraiðn. Ég hóf að vinna hér í VMA árið 2010 en síðar ákvað ég að halda áfram námi og er núna á þriðju önn í meistaraskólanum í fjarnámi, til þess að verða málarameistari. Mér líkar mjög vel að vinna hér í VMA. Þetta er stór vinnustaður, bæði er hér margt starfsfólk og mikill fjöldi nemenda og samskipti við allt þetta fólk hjálpar mér að bæta mig í íslenskunni,“ segir Dragan. Hann segist vinna sem málari þegar tími gefist til eftir vinnu í VMA og einnig nýti hann fríin á sumrin til þess að mála. „Mér finnst mjög gott að geta tekið meistaraskólann í fjarnámi. Auðvitað er þetta mikil vinna, mörg hugtök á ég ekki auðvelt með að skilja en þá spyr ég bara þetta góða fólk hér og það útskýrir hlutina fyrir mér,“ segir Dragan.
Hann segir að það hafi komið sér mjög á óvart þegar hann fékk upphringingu um að hann hefði verið útnefndur einn af fjórum fyrirmyndarnemendum 2015 í fullorðinsfræðslu. „Þetta kom mér skemmtilega á óvart en ég er að sjálfsögðu mjög ánægður með þetta,“ segir Dragan.
Sem fyrr segir var viðurkenningin afhent á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sl. mánudag. Þá var þessi mynd tekin af Dragan og Erlu B. Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar - SÍMEY.