Fyrrum nemandi í VMA klippir Hatara
Það hefur vart farið framhjá nokkrum manni að Hatari með lagið Hatrið mun sigra verður fulltrúi Íslands í Söngvakeppni evróskra sjónvarpsstöðva í Tel Aviv í Ísrael í maí nk. Þræðir fyrrum nemenda VMA liggja víða og það á við um Eurovision eins og margt annað. Þannig er að Bjarki Þór Guðmundsson, sem lærði hársnyrtiiðn í VMA, hefur undanfarin ár verið sérlegur klippari Hatara-piltanna og hann var að sjálfsögðu kallaður til leiks fyrir lokakeppnina um þarsíðustu helgi og sá til þess að hár Hatara liti sem allra best út.
Bjarki Þór er Akureyringur. „Ég hóf nám í VMA haustið 2008 og útskrifaðist árið 2012. Að námi loknu fór ég suður og vann til skamms tíma á nokkrum stofum en síðustu þrjú árin hef ég starfað á hársnyrtistofunni Rebel við Nýbýlaveg í Kópavogi. Þetta er rakarastofa og því hef ég undanfarin ár mest verið í herraklippingum en einnig hef ég tekið að mér ýmis verkefni, til dæmis að lita hár með einhverjum furðulegum litum. Sjálfur er ég reyndar með grænt hár og var alltaf með það á árum mínum í VMA, var þekktur sem „Bjarki græni“.“
En hvernig kom það til að Bjarki sá um hárgreiðslu Hatara-þremenninganna? „Þessir strákar eru allir ágætir félagar mínir. Það má segja að ég hafi kynnst þeim fyrst í gegnum tónlistina. Ég hef hlustað á þunga og öðruvísi raftónlist síðan ég var fimmtán ára gamall og kynnist strákunum í gegnum það. Ég er með smá sambönd erlendis í þessum tónlistargeira og miðlaði ýmsum upplýsingum sem ég hafði aflað mér til strákanna. Eitt leiddi af öðru og þeir fóru að koma til mín á stofuna í klippingu og ég hef líklega klippt þá þrjá, - Matthías (Tryggva Haraldsson), Klemens (Hanningan) og Einar (Hrafn Stefánsson) – í um tvö ár. Daginn fyrir úrslitakeppnina í Eurovision komu þeir til mín í klippingu, þetta var bara eins og hver annar vinnudagur,“ segir Bjarki Þór.
Hann segist að sjálfsögðu hafa kosið Hatara til að fara til Tel Aviv. „Reyndar tók ég þátt í ákveðnum gjörningi Hatara í Laugardalshöllinni á úrslitakvöldinu. Við voru þarna tuttugu úr BDSM-samfélaginu og klæddum okkur í Hataraleg föt en vorum hins vegar með plaköt á lofti til stuðnings Friðriki Ómari. Ég held nú að margir hafi séð í gegnum þennan gjörning og við fengum þær spurningar hvort við værum ekki með vitlaus plaköt á lofti. En þetta var allt fyrirfram ákveðið og eins og Hatarar segja; samkvæmt áætlun,“ segir Bjarki Þór og telur góðar líkur á því að Hatarar fari upp úr undankeppninni og í úrslit.
En er Bjarki Þór á leið til Ísraels til þess að sjá til þess að Hatara-strákarnir fari vel klipptir á sviðið þar ytra? Nei, segir Bjarki, ekki svo hann viti til. Í það minnsta hafi hann ekki verið beðinn um það ennþá. En ef eftir því yrði leitað myndi hann væntanlega slá til.