Fyrrum nemandi VMA með þriðjudagsfyrirlestur um grafíska hönnun
Í dag, þriðjudaginn 4. febrúar kl. 17-17.40, heldur grafíski hönnuðurinn Anton Darri Linden Pálmarsson fyrsta þriðjudagsfyrirlestur ársins undir yfirskriftinni Grafísk hönnun: Að skapa tækifæri og koma sér á framfæri. Fyrirlesturinn er í Listasafninu á Akureyri og er aðgangur er ókeypis.
Í fyrirlestrinum mun Anton Darri ræða um námsferilinn og hvernig hann fékk tækifæri til að vinna fyrir IceGuys, Aron Can, Emmsjé Gauta, Herra Hnetusmjör og fleiri þekkta listamenn og fyrirtæki. Hann mun gefa innsýn í þau verkefni og hvernig það er að starfa sem hönnuður, bæði á auglýsingastofu og sem sjálfstætt starfandi verktaki.
Anton Darri útskrifaðist af listnámsbraut VMA og lærði grafíska hönnun í Myndlistaskólanum á Akureyri. Hann útskrifaðist með meistaragráðu í grafískri hönnun frá IED Firenze í Flórens á Ítalíu af brautinni Graphic Design: With Focus on New Media og hefur síðan unnið bæði á stofum og sem verktaki í skapandi greinum.
Sem fyrr eru þriðjudagsfyrirlestrarnir samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Myndlistafélagsins og Gilfélagsins.