Fara í efni

Fyrrum nemendi VMA gerir það gott í Bretlandi

Sigurður Þorri Gunnarsson, útvarpsmaður.
Sigurður Þorri Gunnarsson, útvarpsmaður.
Vorið 2009 brautskráðist Akureyringurinn Sigurður Þorri Gunnarsson sem stúdent af félagsfræðabraut VMA. Síðan lá leið hans í Háskólann á Akureyri þar sem hann lauk BA-prófi í fjölmiðlafræði vorið 2012. Og þann 2. desember nk. stefnir hann á að ljúka meistaraprófi í útvarpsfræðum frá University of Sunderland í samnefndri borg í Bretlandi. Óhætt er að segja að Sigurður Þorri hafi nú þegar vakið athygli í útvarpsheiminum í Bretlandi því í síðustu viku var tilkynnt að hann hafi hlotið fyrstu verðlaun bresku útvarpsverðlaunanna British Public Radio Award í flokki stuttra heimildaþátta.

Vorið 2009 brautskráðist Akureyringurinn Sigurður Þorri Gunnarsson sem stúdent af félagsfræðabraut VMA. Síðan lá leið hans í Háskólann á Akureyri þar sem hann lauk BA-prófi í fjölmiðlafræði vorið 2012. Og þann 2. desember nk. stefnir hann  á að ljúka meistaraprófi í útvarpsfræðum frá University of Sunderland í samnefndri borg í Bretlandi.  Óhætt er að segja að Sigurður Þorri hafi nú þegar vakið athygli í útvarpsheiminum í Bretlandi því í síðustu viku var tilkynnt að hann hafi hlotið fyrstu verðlaun bresku útvarpsverðlaunanna British Public Radio Award í flokki stuttra heimildaþátta.

Gerði mér engar vonir
Á annað hundrað þættir voru sendir inn í þessa keppni í ár, þar af sendi Sigurður Þorri tvo þætti sem voru síðan tveir af fjórum þáttum sem komu til greina til verðlaunanna.
„Þetta kom þannig til að ég sá þessi verðlaun auglýst og þar kom fram að fólk af öllu Bretlandi gætu sent inn efni.  Ég átti í handraðanum tvö skólaverkefni sem ég var nokkuð bærilega sáttur við og ákvað að senda þau bæði í keppnina. Ég gerði mér hins vegar engar vonir, enda er „standarinn“ hérna í Bretlandi mjög hár í þessum útvarpsheimi. En mig langaði fyrst og fremst að fara í gegnum svona ferli,  að senda inn efni og læra af því. Það kom mér síðan í opna skjöldu þegar báðir þættirnir mínir voru tilnefndir til sjálfra verðlaunanna,“ segir Sigurður Þorri.
Hann segir að umrædd verðlaun séu árleg og nokkuð vel þekkt í Bretlandi. Þeir sem komi að þeim  hafi flestir unnið við útvarp til fjölda ára, flestir innan BBC.  „British Public Radio eru samtök fólks sem hefur það á stefnuskránni að standa vörð um talmálsþætti í bresku útvarpi og eru verðlaunin einungis hugsuð fyrir þætti sem hafa talað mál í öndvegi. Einnig eru veitt verðlaun fyrir útvarpsleikrit, svo eitthvað sé nefnt. Samtökin stefna að því að fara af stað með nýja talmálsstöð á landsvísu hér í Bretlandi og hafa þau tryggt sér réttinn á þessum tveimur þáttum mínum til spilunar,“ segir Sigurður Þorri.
Sem fyrr segir sendi hann tvo þætti í keppnina. Annars vegar „Serpentine Swimming Club“ , sem fjallar um sundklúbb sem stundar sund í tjörn í Hyde Park í miðri London og hins vegar  „A place to belong – Northern Proud Voices“, sem Sigurður Þorri fékk verðlaunin fyrir. Þátturinn fjallar um samkynhneigt fólk í Newcastle sem syngur saman í kór.
Hér er hægt að hlusta á þessa tvo þætti Sigurðar Þorra.

Þroskandi og gott nám í Sundarland
Sigurður Þorri segir að í báðum tilfellum hafi hann fundið sjálfur þessi viðfangsefni. „Það er mikið lagt upp úr rannsókna- og hugmyndavinnu hérna í skólanum. Til marks um það geng ég alltaf með bók á mér og ég skrifa endalaust niður í hana allar þær hugmyndir að þáttum sem mér detta í hug. Það má því segja að það sé alltaf kveikt á dagskrárgerðarmanninum í mér. Núna er ég til dæmis með í vinnslu  heimildaþátt um risastóra yfirgefna bæjarblokk í London og hvernig lífið var þar. Fjölmiðlun og dagskrárgerð er bara spurning um að vera skapandi og hafa áhuga á fólkinu og umhverfinu í kringum sig.“
Námið í Sunderland segir Sigurður Þorri að hafi orðið til þess að hann hugsi núna alllt öðruvísi um útvarp og fjölmiðla en fyrir ári síðan. „Ég taldi mig vita eitthvað um þetta þegar ég kom hingað út fyrir um ári en þetta hefur algjörlega bylt fyrri hugmyndum. Þetta hefur þroskað mig gríðarlega sem dagskrárgerðarmann. Reynslan er ómetanleg en þeir sem hafa kennt mér hérna úti hafa samanlagt vel yfir 100 ára reynslu hér í Bretlandi m.a. á BBC.“

Að kasta sér í djúpu laugina
Það má orða það svo að Sigurður hafi kastað sér beint út í djúpu laugina, því samhliða náminu fékk hann það verkefni að stýra morgunþætti á „lókal“ útvarpsstöð í Sunderland.
„Ég hafði ekki hugmyndaflug til þess að láta mér koma til hugar að verða útvarpsmaður hér, í þeim skilningi að tala í útvarpið. Ég horfði meira til þess að starfa bakvið tjöldin í dagskrárgerð eða stjórnun. En líf mitt hefur einhvern veginn verið þannig að ég dett inn í ótrúlegustu hluti. Ég ætlaði aldrei að verða sjónvarpsmaður en svo allt í einu datt ég inn í það hlutverk, ég ætlaði aldrei að verða plötusnúður en allt í einu datt inn í þann heim og nú þetta. Ég ætlaði ekki að verða útvarpsmaður hérna úti í þeim skilningi að vera að vera blaðra í útvarpið á milli laga eins og ég hef gert heima en allt í einu datt ég inn í það og stjórnaði morgunþætti um helgar á útvarpsstöð hér í Sunderland sl. vetur. En erfitt var það og er enn!  Þeim sem stjórna stöðinni fannst sniðugt að prufa að hafa útlending í útsendingum og  gera þannig eitthvað nýtt! Þeir höfðu heyrt til mín í skólaverkefni sem ég vann, eitt af mínum fyrstu verkefnum hér, og buðu mér að gera prufu sem þeim fannst það góð að ég endaði með að stjórna þessum þætti.“

Verðlaunin skipta máli
Sigurður Þorri segir ekkert launungarmál að þessi verðlaun geti skipt töluverðu máli fyrir sig, enda hafi hann áhuga á því að kynnast betur og starfa í bresku útvarpi.  „Já, þetta hefur komið nafninu mínu út á meðal fagfólks í bransanum sem horfir til þessara verðlauna. Verðlaunin skipta máli fyrir mig til þess að komast á næsta stig hér út, aði verða eitthvað annað en réttur og sléttur nemandi sem langar að fá vinnu í framtíðinni. Þetta opnar vonandi einhverjar dyr en það er mjög erfitt að fá starf í þessum bransa hér í Bretlandi. Það má kannski líkja þessu við að reyna að verða leikari í Hollywood. Endalaus nei og svo kemur allt í einu eitt já. En þá verður maður að hafa þykkan skráp til þess að þola öll nei-in á undan,“ segir Sigurður Þorri. Hann orðar það svo að allt sé galopið með vinnu í framhaldi af meistaranáminu sem hann lýkur formlega í byrjun desember. „Ég kem heim undir lok september eftir að ég hef lokið náminu mínu til þess að komast í smá frí en þetta er búið að vera strembið ár hérna úti. Ég verð svo á flakki á milli Bretlands og Íslands fram að áramótum og svo sjáum við bara hvað framtíðin ber í skauti sér. Það væri frábært að komast inn í bransann hér úti og ná í enn meiri reynslu. Ég ætla klárlega að gefa því séns, því annars á ég eftir að sjá eftir því alla ævi að hafa ekki reynt!“

Vinnur að lokaverkefni
Þessa dagana vinnur Sigurður Þorri að lokaverkefni sínu í náminu í Sundarland sem hann segir vera stórt verkefni fyrir útvarp.  „Þetta eru fimm þættir sem verða sendir út á lókal útvarpsstöðinni í Sunderland í nýnemavikunni hér í háskólanum. Yfirskrift þáttanna er "heilsa" og er megin markmiðið með þeim að fá ungt fólk til þess að hugsa um heilsu. Nýnemavikunni í Bretlandi, sem kölluð er „Freshers Week“,  fylgir yfirleitt mikið sukk, svall og svínerí og er þetta verkefni mitt hugsað sem leið til þess að gera eitthvað nýtt í þessari viku. Ég sem sagt framleiði þessa þætti, sem felur í sér að rannsaka viðfangefnið, finn viðmælendur, tek viðtöl, klippi efnið, ræð inn útvarpsfólk sem sér um að kynna þáttinn o.fl. Þátturinn verður ekki bara í útvarpinu heldur verður mikið af fræðsluefni á vefnum auk þess sem ég mun framleiða smá sjónvarpsefni í tengslum við þetta. Þannig að þetta verkefni er risavaxið, allt of stórt eiginlega, en það er minn stíll að sökkva mér ofan í eitthvað.“

Fjölmiðlabakterían
Sigurður Þorri segist lengi hafa haft brennandi áhuga á fjölmiðlum, einkum útvarpi. 
„Ég fékk þennan áhuga mjög ungur. Gestur Einar Jónasson útvarpsmaður var nágranni minn þegar ég var krakki og hann smitaði mig af þessari bakteríu, þetta er allt honum að kenna! Ég stofnaði mína fyrstu útvarpsstöð 12 ára gamall og fékk í kjölfarið fasta þætti á stöð sem hét FM Akureyri. Ég hef starfað eiginlega óslitið á einn eða annan hátt síðan þá. Nítján ára gamall stjórnaði ég vinsælum morgunþáttum á stöð á Akureyri sem hét Voice og eftir það fór ég að vinna með Einari Bárðarsyni að uppbyggingu Kanans sem nú hetir K100 og er rekin af Skjánum. Þá var ég í fullu námi í Háskólanum á Akureyri og flaug á milli Akureyrar og Reykjavíkur oft í mánuði, en þess má geta að ég er mjög flughræddur þannig að maður leggur margt á sig fyrir útvarpið! Ég hef einnig framleitt efni sjónvarpsefni fyrir N4 frá árinu 2009 og stjórnaði þætti á Skjá Einum sumarið 2010.“

Frábær tími í VMA
Eins og að framan segir lauk Sigurður Þorri stúdentsprófi frá VMA vorið 2009. „Ég var í fjögur ár í VMA sem var frábær tími. VMA er einstaklega góður skóli og þar naut ég mín í botn. Kennarnir eru frábærir og ég held ennþá sambandi við marga þeirra í dag. Ég reyni að rækta samband við skólann að einhverju leyti og finn mér allskyns afsakanir til að líta þangað uppeftir. Ef þurfti að gera frétt á N4 um VMA var  ég fyrsti maðurinn til að hrópa: pant ég! Það er virkilega gaman að fylgjast með skólanum vaxa og dafna. Ég er mjög stoltur af því að hafa verið í VMA. Við skulum alveg tala hreint út um að skólinn hefur oft orðið fyrir barðinu á fordómum af því að hann þyki ekki nógu fínn. Ég fékk til dæmis alveg að finna fyrir því á sínum tíma þegar ég fór í VMA. Ég held stundum að krakkar sem langar í VMA séu pressaðir til að fara eitthvað annað vegna þessara fordóma. Við þá segi ég: VMA er frábær skóli og hann undirbýr ykkur vel fyrir lífið, hvort sem þið ætlið í háskóla eða eitthvað annað. Ég þakka góðum undirbúningi í VMA góðum árangri í háskólanáminu mínu en ég er að ljúka meistaranámi 24 ára gamall. Á sínum tíma gekk mér mjög vel á öllum samræmdu prófunum, nema í stærðfræði þar sem einkunnin var rétt undir 5. Vegna þessarar einkunnar í stærðfræði fékk ég synjun frá hinum skólanum sem ég sótti um en í VMA var mér tekið opnum örmum af Hermanni Jóni Tómassyni áfangastjóra. Ég þakka í dag fyrir að hafa bara náð 4,5 í stærðfræði sem leiddi mig í VMA, því árin þar voru frábær!
VMA fer ekki  í manngreinarálit eftir einhverjum rúðustrikuðum reglum eins og sumir skólar þegar þeir taka nemendur inn og það finnst mér frábært. Þar fær fjölbreytileikinn að ráða ríkjum. Ég fékk að heyra þennan frasa: ef þú ætlar í háskólanám þá getur þú ekki farið í VMA. En það er bara algjört bull. Áfangakerfið er líka frábært. Ég réð svolítið hvernig ég raðaði náminu mínu upp og það þroskaði mig mikið, að þurfa að taka ábyrgð á því sjálfur en ekki bara mæta að hausti og fara inn í eitthvað fyrirfram skipað nám. Þetta gerir fólki líka mögulegt að taka námið á styttri eða lengra tíma. Ég valdi á sínum tíma að taka hin hefðbundnu fjögur ár og njóta alls þess sem framhaldsskólalífið hefur upp á að bjóða.
Ég fór síðan í fjölmiðlafræðina í Háskólanum á Akureyri og ég vil segja að sú námsbraut undir stjórn Birgis Guðmundssonar er einnig virkilega gott nám og megum við Akureyringar vera stoltir af því að hafa svona öflugan háskóla í bænum. Þetta er eina fjölmiðlafræðideildin á landinu sem býður upp á fullt nám í fjölmiðlafræði,“ segir Sigurður Þorri Gunnarsson.