Fyrsta konan í stjórn Sögufélags Eyfirðinga!
Rannveig Karlsdóttir er í 75% starfi á bókasafni VMA og í 25% starfi íslenskukennara við skólann. Hún hafði kennt til nokkurra ára við tvo af grunnskólum Akureyrar en fór síðan í meistaranám í þjóðfræði og færði sig síðan upp á Eyrarlandsholtið. Áhuginn á þjóðlegum fræðum leiddi hana nýverið inn í stjórn Sögufélags Eyfirðinga, sem m.a. gefur út tímaritið Súlur, þar sem hún er fyrsta konan til þess að taka að sér stjórnarstörf í 44 ára sögu félagsins. Reyndar tók hún við sem ritari í stjórn félagsins af fyrrverandi skólameistara VMA, Bernharð Haraldssyni, sem á dögunum fluttist búferlum til Reykjavíkur.
Rannveig var í VMA á sínum tíma og lauk þar stúdentsprófi af félagsfræðabraut árið 1991. Síðan lærði hún til grunnskólakennara í Háskólanum á Akureyri og að því loknu kenndi hún við gamla Gagnfræðaskóla Akureyrar - síðar Brekkuskóla og einnig við Oddeyrarskóla. Þá lá leiðin í meistaranám í þjóðfræði og að því loknu tók við starf á bókasafninu í VMA og við íslenskukennslu.
Rannveig segist lengi hafa haft áhuga á þjóðlegum fróðleik og hún hafi grúskað í ýmsu, bæði í tengslum við sitt nám á sínum tíma og einnig sér til ánægju og fróðleiks. „Ég hef oft verið að grúska á Héraðsskjalasafninu hér á Akureyri og einn daginn greip Jón Hjaltason sagnfræðingur, stjórnarformaður Sögufélagsins, mig glóðvolga og bað mig um að koma í stjórn félagsins. Ég lét til leiðast.“
Fyrr á þessu ári kom út 54. hefti af Súlum – en sem fyrr segir stendur Sögufélag Eyfirðinga, sem var stofnað árið 1971, að útgáfu þess. Ritstjóri Súlna er Björn Teitsson, fyrrum skólameistari á Ísafirði, sem nú býr á Akureyri. Í ritinu er að finna ómetanlegan fróðleik af ýmsum toga úr norðlenskum byggðum. Vorið 2016 kemur út 55. heftið og þar verður m.a. að finna viðtal Birgis Sveinbjörnssonar við þingkonuna Málmfríði Sigurðardóttur sem hefur frá fjölmörgu áhugaverðu að segja. Málmfríður býr nú á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri.
Rannveig segist hafa mikla ánægju af starfi sínu í VMA, bæði á bókasafninu og íslenskukennslunni. “Mér finnst afskaplega gaman að kenna og þetta heldur mér við í faginu. Með breytingunni á framhaldskólakerfinu og styttingu náms til stúdentsprófs í þrjú ár skárum við upp alla áfangana í íslensku. Í leiðinni breyttum við töluvert þeim valáföngum sem elstu nemendum okkar standa til boða og nú bjóðum við m.a. upp á áfanga í þjóðfræði sem hingað til hefur ekki verið kennd sérstaklega í framhaldsskólum. Í honum verður að sjálfsögðu farið í hefðbundið efni eins og þjóðsögur og ævintýri, en einnig fjallað um og unnið með munnlegar heimildir og hversdagsmenningu fortíðar og nútíðar almennt eins og t.d. hvaða merkingu hafa húðflúr, af hverju segjum við ákveðna brandara o.s.frv. Ef nógu margir velja það fag mun ég væntanlega kenna það á vorönn. Nú eru, mér vitanlega, tveir framhaldsskólar að búa til svona þjóðfræðiáfanga. Annars vegar VMA og hins vegar Flensborgarskóli í Hafnarfirði,“ segir Rannveig Karlsdóttir.
Á meðfylgjandi mynd er fráfarandi ritari Sögufélags Eyfirðinga, Bernharð Haraldsson, fyrrverandi skólameistari VMA, sem nú hefur flust búferlum til Reykjavíkur, að afhenda Rannveigu fundagerðabók félagsins.