Fyrsti hópurinn í kvöldnámi í rafvirkjun á lokaspretti námsins
Þann 21. desember nk. útskrifast fyrstu nemendurnir úr kvöldskóla VMA í rafvirkjun. Ellefu nemendur hófu námið um áramótin 2022-2023 og hafa því að þessi önn lokinni verið í náminu í tvö ár. Í ársbyrjun 2024 hófu sjö nemendur til viðbótar námið og ljúka því einnig í næsta mánuði eftir tveggja anna nám. Þessir nemendur hafa áður lokið námi í öðrum greinum, t.d. véliðngreinum og rafeindavirkjun – og þurftu því lítið að bæta við sig til þess að ljúka við rafvirkjunina. Það stefnir því í að átján rafvirkjar úr kvöldskólanum, sem sumir hafa lengi unnið í faginu, útskrifist sem rafvirkjar frá VMA í næsta mánuði. Þessar myndir voru teknar þegar litið var inn í kennslustund hjá rafvirkjanemum í kvöldskólanum. Tveir kennarar voru að kenna, Guðmundur Geirsson og Magni Magnússon.
Framtíðin er á Íslandi
Marcin Jerzy Karkowski er einn þeirra ellefu nemenda sem hafa stundað nám í kvöldskólanum í rafvirkjun frá áramótum 2022-2023.
Ég hef verið hér á Íslandi í rúm átta ár. Fyrstu fimm árin bjó ég í Keflavík og starfaði hjá Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Árið 2021 fluttum við til Akureyrar.
Í Póllandi var ég í rafvirkjun í tækniskóla skammt frá Katowice en lauk ekki náminu, fór að vinna í kolanámu og var í þeirri vinnu í sjö ár. Hér á Íslandi var mér bent á þann möguleika að fara í raunfærnimat og fá metið það sem ég hafði lært í Póllandi en ég ákvað að gera það ekki, mér fannst skynsamlegra að taka námið frá grunni. Og það hef ég gert í kvöldskólanum hér í VMA. Mér finnst mikilvægt að læra öll íslensku fagorðin og ekki síst þess vegna ákvað ég að taka allt námið frá grunni.
Ég starfa hjá Tengi og þegar sá möguleiki kom upp að geta tekið þetta nám samhliða minni daglegu vinnu var ég ekki lengi að hugsa mig um og ég sótti um. Það er góð tilfinning að vera núna á lokasprettinum í náminu og síðan stefni ég á sveinspróf eftir áramót.
Mér hefur fundist námið mjög gott og skemmtileg blanda af bóklegu og verklegu námi, ég er mjög ánægður með það. Kennararnir hafa verið mjög þolinmóðir og skilningsríkir.
Marcin talar prýðilega íslensku og dregur ekki dul á að hann leggi mikla áherslu á að læra tungumálið. Raunar byrjaði hann að læra íslenskuna í Póllandi þegar ljóst var að hann væri á leið til Íslands til þess að vinna hjá Icelandair.
Hann neitar því ekki að námið í kvöldskólanum hafi verið nokkuð stíft og því drjúg viðbót við hans daglegu vinnu. Það hafi því verið margir langir dagar. Fyrstu tvær annirnar hafi verið kennt síðdegis og fram á kvöld fjóra daga í viku, á þriðju önninni var kennt þrjá daga og tvo daga á þessari síðustu önn.
En ég er fullur orku og hef haft mikla ánægju af náminu. Ég hef auðvitað haft mikið að gera á meðan á því hefur staðið en þegar ég verð búinn að ljúka við þetta allt gefst mér tími til þess að fara að huga að næsta kafla - að sækja um íslenskan ríkisborgararétt. Til þess þarf ég að hafa verið hér í sjö ár – sem ég hef verið – og einnig þarf ég að fara í tungumálapróf. Ég er ákveðinn í að fara í þetta og sækja um ríkisborgararétt. Ég sé framtíð mína hér á Íslandi.
Vélfræðingur og rafvirki
Einn þeirra sjö nemenda sem hófu nám í kvöldskólanum í rafvirkjun um síðustu áramót er Jón Ólafur Jónsson. Hann hefur undanfarin tvö og hálft ár starfað hjá Rarik og tekur því námið með vinnunni.
Jón Ólafur þekkir vel til í VMA. Hann lauk við C-stigið í vélstjórn vorið 2022 og er núna, auk þess að vera í fullri vinnu og kvöldskóla í rafvirkjun, að taka í fjarnámi þann eina stærðfræðiáfanga sem upp á vantar til þess að geta lokið D-stiginu í vélstjórn og fá starfstitilinn vélfræðingur. Stefnan er því að útskrifast núna í desember bæði sem vélfræðingur og rafvirki.
Jón Ólafur segir að í sínum huga sé mikilvægt að fá full réttindi sem bæði rafvirki og vélstjóri og því hafi verið góður kostur að taka þetta nám í kvöldskóla. Fyrir nokkrum vikum tók Jón sveinspróf í vélvirkjun og hann segist stefna á sveinspróf í rafvirkjun næsta vor.
Jón Ólafur neitar því ekki að það hafi verið töluvert púsluspil að taka kvöldnámið í rafvirkjun með fullri vinnu hjá Rarik. Sérstaklega núna á haustönninni því útiverkefnin hjá Rarik hafi teygst lengra fram á haustið en oft áður vegna einstaklega góðrar tíðar – allt þar til veturinn skall á af þunga núna í nóvember.
Umsóknarfrestur um kvöldskóla í rafvirkjun til 2. desember nk.
En núna, þegar fyrsti námshópurinn í kvöldskóla í rafvirkjun er á lokasprettinum í náminu, er farið að leggja línur með næsta námshóp sem mun hefja námið á vorönninni. Enn er hægt að sækja um en áhugasamir ættu að hafa hraðar hendur því umsóknarfrestur rennur út nk. mánudag, 2. desember. Hægt er að sækja um hér. Miðað er við að nemandi hafi náð 22 ára aldri og/eða hafi viðeigandi starfsreynslu. Nemendur sem vinna í faginu ganga fyrir í inntöku. Nemendur sem hafa undirgengist raunfærnimat fá viðkomandi áfanga metna. Ef fleiri sækja um nám á brautinni en skólinn getur tekið við getur inntökuviðmið orðið hærra en lágmarkið.
Nánari upplýsingar um námið veitir Haukur Eiríksson, brautarstjóri rafdeildar VMA. Netfang hans er: haukur.eiriksson@vma.is