Fyrsti nemandinn sem lýkur námi frá VMA samkvæmt nýrri námsskrá
Björn Vilhelm Ólafsson er átján ára Siglfirðingur. Hann er á náttúrufræðibraut VMA og útskrifast sem stúdent frá skólanum 21. desember nk. Sem er ekki í frásögur færandi nema fyrir það að Björn Vilhelm verður fyrsti nemandinn sem lýkur námi frá skólanum samkvæmt nýrri námsskrá og hann gerir það á óvenjulega skömmum tíma, tveimur og hálfu ári.
„Ég ákvað strax í 10. bekk í Grunnskóla Fjallabyggðar á Siglufirði að ég ætlaði að ljúka stúdentsprófi á tveimur og hálfu ári. Ég sagði Ómari Kristinssyni sviðsstjóra stúdentsprófsbrauta þessa ákvörðun mína þegar ég kom í VMA haustið 2015 og það hefur gengið eftir. Það hefur því algjörlega verið meðvituð ákvörðun af minni hálfu að taka námið á tveimur og hálfu ári. Ég sá möguleika á að gera það í áfangakerfinu hér í VMA og þess vegna ákvað ég að koma hingað,“ segir Björn Vilhelm.
Á bæði haust- og vorönn í 10. bekk grunnskóla tók hann fyrstu tvo framhaldsskólaáfangana í íslensku og stærðfræði í fjarnámi – einfaldlega vegna þess að hann hafði þá þegar lokið námsefni 10. bekkjar í báðum þessum námsgreinum - og einnig tók hann nokkra valáfanga sem hafa nýst honum til eininga í VMA. Til viðbótar hefur hann tekið fjarnámsáfanga til hliðar við námið í dagskóla í VMA.
„Þegar ég hóf nám í VMA ákvað ég einbeita mér að náminu og vinna því ekki með skólanum. Mér hefur ekki fundist þetta vera stórmál enda hefur nám aldrei vafist fyrir mér. En ég viðurkenni að ég geri svo sem ekki mikið annað en að fara í skólann, borða og sofa. Reyndar hef ég þá reglu að gefa mér góðan tíma í ræktinni eftir skóla,“ segir Björn Vilhelm.
Þegar Björn Vilhelm kom í VMA hafði hann í huga að fara í verkfræði að loknu stúdentsprófi. En hann hefur skipt um skoðun. „Já, ég er ákveðinn í því að fara í læknisfræði. Námið í VMA kveikti í mér að velja frekar læknisfræðina. Ég stefni á að fara í inntökupróf í vor og nýta tímann til vors til undirbúnings fyrir prófið. Vonandi tekst mér að komast inn og byrja í læknisfræðinni næsta haust,“ segir Björn Vilhelm Ólafsson.