Gaman að skapa
Ef til vill má orða það svo að Jóhanna Madsen hafi ekki fetað venjubundna slóð á menntaveginum. Á sínum tíma fór hún á málabraut Menntaskólans á Akureyri og brautskráðist stúdent þaðan vorið 2013. En eins og oft vill verða með ungmenni á þessum aldri vissi Jóhanna ekki hvað hún ætlaði að verða þegar hún yrði stór.
Jóhanna segist ekki leyna því að í sér sé eilítið flökkueðli og því hafi hún farið veturinn 2009-2010 sem skiptinemi til Portúgals. „Ég grenjaði fyrsta mánuðinn en síðan lagaðist þetta fljótt og dvölin ytra var mér dýrmæt og góð reynsla auk þess sem ég lærði portúgölsku,“ rifjar Jóhanna upp og brosir.
Fyrstu mánuði ársins 2013 var hún í Afríku – á sama tíma og samstúdentar hennar voru að ljúka við fjórða bekkinn í MA. Jóhanna lagði hart að sér að ljúka stúdentsprófinu fyrir áramót 2012-2013 og tókst það með því að taka nokkur fög í fjarnámi en hún útskrifaðist síðan með félögum sínum vorið 2013, sem fyrr segir.
En þá var það stóra spurningin, hvað skyldi Jóhanna gera eftir stúdentspróf. Hún segist hafa skoðað nám í fjölmörgum háskólum en engin námsbraut hafi heillað hana upp úr skónum.
„Þegar ég fór síðan að hugsa til baka og velta fyrir mér hvað mér fannst skemmtilegast að gera þegar ég var yngri þá staldraði ég við smíðar. Ég er uppalin á sveitabæ á Skriðdal og þar var maður alltaf eitthvað að brasa og í grunnskólanum á Egilsstöðum fannst mér alltaf gaman að smíða. Niðurstaðan var því sú að fara í húsasmíði. Mig langaði til að standa svolítið á eigin fótum og fór þess vegna til Reykjavíkur og tók fyrsta árið í Tækniskólanum. Borgarlífið heillaði mig hins vegar ekki, ég nennti ekki að vera stöðugt í umferðarteppu og því ákvað ég koma aftur norður og fara í VMA. Ég byrjaði þar á öðru ári í húsasmíðinni núna í haust. Þegar ég horfi til baka er ég sátt við að hafa farið suður og tekið þar fyrsta árið en ég er líka mjög ánægð með þá ákvörðun að hafa komið aftur norður og farið í VMA. Ég er mjög ánægð með skólann og kennsluna hér. Hér eru ekki eins margir nemendur og fyrir sunnan og aðstaðan hér er fyrsta flokks. Ég hef alltaf farið mínar eigin leiðir og ákvörðun um að fara í húsasmíði kom frá hjartanu. Ég nýt námsins, það er gaman og gefandi að skapa eitthvað og sjá hlutina verða til. Ég vann hjá byggingarfyrirtæki hér á Akureyri síðastliðið sumar og líkaði það ljómandi vel. Smíðarnar eiga vel við mig,“ sagði Jóhanna Madsen.