Er félagslynd og finnst gaman að vinna með fólki
Það er í mörg horn að líta hjá nemendunum sem skipa stjórn nemendafélagsins Þórdunu, ekki síst eru fyrstu vikur annarinnar annasamar enda þarf að ýta úr vör hinum ýmsu verkefnum og leggja línur fyrir veturinn. En þeir nemendur sem gefa kost á sér að taka að sér þessi störf í þágu skólafélaga sinna sjá síður en svo eftir þeim drjúga tíma sem í þau fara enda felist í félagsstörfunum ómetanlegur lærdómur og mikil reynsla til framtíðar.
Jasmín Arnarsdóttir er kynningarstjóri í stjórn Þórdunu á þessu skólaári. Hún segir að ekki sé hægt annað en vera afar sátt við nýnemaballið sem var haldið í síðustu viku og var fyrsti stórviðburður vetrarins í félagslífinu. Á ballið mættu um fjögur hundruð manns og var gríðarleg stemning í Sjallanum. Allt gekk þetta upp að lokum en veðurguðirnir voru næstum búnir að setja eitt risastórt strik í reikninginn því fluginu frá Reykjavík var ítrekað frestað vegna veðurs, sem var ekki óskastaða því bróðurpartur skemmtikraftanna kom frá Reykjavík. En sem betur fer rættist úr á síðustu stundu og var hægt að koma ballinu af stað með DJ frá Akureyri og síðan komu skemmtikraftarnir í hús í Sjallanum um kl. 22 – og þá var allt keyrt í gang!
„Mér finnst mjög gaman að vinna að verkefnum eins og félagslífinu í þágu annarra. Sjálf er ég mjög félagslynd og finnst gaman að vinna með öðru fólki. Við í nemendaráðinu erum mjög náin, við hittumst mikið og spjöllum og vinnum vel saman að verkefnunum,“ segir Jasmín.
Í grunnskólanum (Auðarskóla í Búðardal) í heimabyggð sinni, Dalabyggð, var hún í nemendaráðinu í tvö ár, seinna árið sem formaður. Auðarskóla sækja grunnskólakrakkar úr Búðardal og nágrannasveitum en Jasmín kemur frá bænum Kringlu , sem er í um korters akstursfjarlægð frá Búðardal.
Í VMA hóf Jasmín nám fyrir rösku ári síðan, í ágúst 2023, og innritaðist á íþrótta- og lýðheilsubraut. Ákvað síðan að breyta um kúrs og hóf nám á sjúkraliðabraut núna í haust. Helsta ástæðan fyrir því var sú að sumarvinnan á Silfurtúni, dvalarheimili aldraðra í Búðardal, á liðnu sumri sveigði áhuga hennar að sjúkraliðanáminu og hún segist afar sátt við það nám. Nú er stefnan tekin á að útskrifast af sjúkraliðabraut og með stúdentspróf – og félagsstörfin verða hliðarverkefni.
En hver var ástæðan fyrir því að Jasmín ákvað fyrir rösku ári að fara í framhaldsskóla á Akureyri en ekki í einhvern af næstu framhaldsskólum, t.d. í Grundarfirði, Borgarnesi eða á Akranesi? Jasmín segir að hún hafi einfaldlega langað til að víkka út sjóndeildarhringinn og eignast nýjan vinahóp. Það hafi sannarlega gengið eftir og hún sé því hæstánægð með þá ákvörðun að fara í VMA.
Jasmín kynningarstjóri segir að margt sé framundan í félagslífinu sem stjórn Þórdunu vinni nú að. Nefna megi undirbúning fyrir söngkeppnina Sturtuhausinn í nóvember og að setja saman lið skólans fyrir Gettu betur – spurningakeppni framhaldsskólanna. Og eitt og annað til viðbótar sé á stefnuskránni á komandi dögum og vikum.