Gaman í gullsmíði
Einn af þeim valáföngum sem boðið er upp á í VMA er listmunasmíði sem er einskonar grunnáfangi í gullsmíði. Kristín Petra Guðmundsdóttir gullsmiður er kennari í áfanganum en í honum eru tólf nemendur.
„Þetta er valáfangi og opinn fyrir alla nemendur skólans. Nemendur fá almenna kynningu á gullsmíði og síðan köstum við þeim svolítið út í djúpu laugina og þeir smíða annað hvort hálsmen eða lyklakippu. Síðan smíða allir nemendur sér hring þar sem ég geri forskrift að breidd og þeir eiga síðan að skreyta hringinn með einhverju og loks fer íslenskur steinn ofan á hringinn,“ segir Kristín Petra.
Tólf nemendur eru í þessum áfanga sem er sá hámarksfjöldi sem Kristín Petra kennir í einu. Hún segir að í áfanganum hafi oft kviknað mikill áhugi nemenda á gullsmíði. „Þess eru dæmi að áhugi á gullsmíði hafi kviknað hér og viðkomandi nemendur hafa farið að læra gullsmíði í Tækniskólanum í Reykjavík, þar sem þetta fag er kennt hér á landi, og einnig veit ég um nemendur sem hafa stefnt að því að fara erlendis í gullsmíðanám. Það er því ánægjulegt að þessi grunnáfangi hjá okkur hefur opnað augu nemenda fyrir gullsmíði og glætt áhuga þeirra á faginu,“ segir Kristín Petra.
Athygli vekur að bróðurpartur nemenda í þessum áfanga í VMA er stúlkur. Kristín Petra segir að áhugi stúlkna á gullsmíði hafi aukist á undanförnum árum. Hún rifjar upp að þegar hún sjálf lærði gullsmíði fyrir meira en tveimur áratugum hafi hún verið karlafag. „Ég man að ég var beðin um að taka þátt í kvennaráðstefnu vegna þess að ég væri í hefðbundnu karlastarfi. En núna er annað uppi á teningnum enda hefur konum í faginu fjölgað mjög á undanförnum árum,“ segir Kristín Petra.