Gamlir VMA-nemar í eldlínunni í London
Gamlir VMA-nemar gera garðinn frægan víða – ekki bara hér á landi heldur einnig á erlendri grundu, eins og vera ber. Um helgina voru fjórir gamlir VMA-nemar í eldlínunni í London sem fólst í því að bjóða þarlendum upp á dýrindis máltíðir.
Friðrik V. Karlsson, sem rekur veitingastaðinn Friðrik V, tók sig til ásamt starfsfólki sínu og setti upp veitingastað í galleríi í hverfinu Angel í Austur-London og bauð þar upp á íslenskan mat af bestu gerð þrjú kvöld í röð – sl. fimmtudagskvöld, föstudagskvöld og í gærkvöld. Og öll kvöldin tókst þetta líka svona glimrandi vel og var uppselt öll kvöldin!
Friðrik var á matvælabraut í eitt ár forðum daga í VMA og síðar var hann til margra ára með veitingastað á Akureyri áður en hann flutti sig suður yfir heiðar og rekur nú ásamt eiginkonu sinni, Arnrúnu Magnúsdóttur, veitingastað með sama nafni í miðborg Reykjavíkur. Arnrún var einnig í VMA - í tvö ár á matvælabraut og raunar kynntust þau Friðrik og Arnrún í VMA.
Í starfsliðinu í London voru m.a. Jóhann Malmquist, sem útskrifaðist með stúdentspróf úr VMA og Agla Rún, sem var í félagsfræðideild í VMA á árunum 2011 til 2013.
Það sveif því andi Akureyrar og VMA yfir vötnum í Austur-London um helgina.
Meðf. myndir eru af fb-síðu Friðriks V.