Gefur mikið að rétta fólki hjálparhönd
Meðalnámstími á sjúkraliðabraut, sem er ætlað að búa nemendur undir að starfa sem sjúkraliðar, er sex annir í skóla auk fjögurra mánaða starfsþjálfunar á sjúkrastofnun. Fyrsta árið er bóklegur grunnur en síðan bætast við – auk bóklegra áfanga - verklegir áfangar á þriðju önn. Ekki er gert ráð fyrir að nemendur fari í vinnustaðanám fyrr en þeir eru orðnir átján ára – námsskipulagið gerir ráð fyrir því á þremur seinni önnunum.
Sem fyrr segir taka nemendur fyrstu verklegu tímana á þriðju önn. Litið var inn í tíma hjá annars árs nemendum, undir handleiðslu Maríu Albínu Tryggvadóttur brautarstjóra, þar sem farið var yfir ýmis grunnatriði í umönnun sjúklinga. Nemendur brugðu sér bæði í hlutverk sjúkraliða og sjúklinga og æfðu sig í ýmsum grunnþáttum. Að mörgu er að hyggja.
Akureyringurinn Lísa María Ragnarsdóttir er hæstánægð með sjúkraliðanámið. „Ég valdi þetta nám einfaldlega vegna þess að ég hafði brennandi áhuga á þessu. Áhuginn beindist í þessa átt líklega á næstsíðasta ári í grunnskóla og grunnskólakynningin hér í VMA hafði sitt að segja. Ég hef áhuga á umönnunarstörfum, að hjálpa fólki. Ég finn að ég er á réttri hillu í þessu námi,“ segir Lísa María. Hún segir að það muni koma í ljós síðar hvort hún starfi sem sjúkraliði eða fari í frekara nám í heilbrigðisvísindum. „Hjúkrunarfræði kemur til greina og einnig finnst mér sjúkranudd áhugavert. Þetta nám er alveg klárlega góður grunnur fyrir frekara nám.“
Lísa María segir að nám á sjúkraliðabrautinni sé víðtækt. „Hér lærum við allt sem að notum kemur í störfum sjúkraliða. Við lærum m.a. samskipti við sjúklinga, sem er mjög mikilvægur þáttur, hjúkrun, sjúkdómafræði, lífefna- og líffærafræði og heilbrigðisfræði, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Lísa María og er ákveðin í að bæta við sig þeim fögum sem þarf til þess að ljúka einnig stúdentsprófi.
Stúlkur eru í miklum meirihluta nemenda í sjúkraliðanámi. Einhverra hluta vegna hefur reynst erfitt að beina strákum inn á þessa braut. Sem betur fer eru þó alltaf nokkrir sem prófa. Einn þeirra er Akureyringurinn Róbert Guðnason. Hann er einn með stelpunum á öðru ári í sjúkraliðanáminu í VMA. „Margir fara á náttúrufræðibraut og vilja þannig undirbúa sig fyrir til dæmis læknisfræði. Ég spyr; hví ekki að taka grunninn hér á sjúkraliðabrautinni og læra þannig inn á t.d. mannleg samskipti sem er stór hluti af öllum störfum á sjúkrastofnunum? Hér lærum við öll þessi grunnatriði. Ég tók ákvörðun um það í tíunda bekk að læra eitthvað þar sem mannleg samskipti væru ofarlega og jafnframt langaði mig að starfa við að rétta fólki hjálparhönd. Þessi námsbraut varð ofan á og ég sé ekki eftir því. Til viðbótar við sjúkraliðann er stefnan að ljúka stúdentsprófi og síðan kemur alveg til greina að fara í læknisfræði eða sjúkraflutninga. Ég tel alveg tvímælalaust að þetta sé góður grunnur fyrir til dæmis læknisfræði. Hér lærum við ýmis grunnfög sem nýtast vel fyrir nema í bæði læknisfræði og hjúkrunarfræði,“ segir Róbert.
Hann segir mjög miður að ekki skuli fleiri strákar fara í sjúkraliðanám og hann hvetur kynbræður sína til þess að gefa þessu námi gaum. „Ég kann ekki skýringuna á því af hverju stúlkur eru og hafa verið í miklum meirihluta í sjúkraliðanámi. En líklega er þetta mjög gamalt mynstur sem erfitt er að breyta – í gamla daga voru konur fyrst og fremst í umönnunarstörfum og svo er enn. En þessu þurfum við að breyta og því þurfum við fleiri karla í þetta nám – það ætti að vera verðugt verkefni í jafnréttisbaráttunni. En til þess þarf kynna námið betur fyrir körlum. Ég mæli eindregið með þessu námi. Hér lærum við m.a. samskipti í víðum skilningi og sá lærdómur hefur nýst mér mjög vel við þjálfun yngri iðkenda í íshokkí,“ segir Róbert.