Fara í efni

Gengið í Lamba

Við upphaf ferðar sl. fimmtudag á leið fram Glerárdal. Áfangastaður var Lambi, fram undir dalbotni. …
Við upphaf ferðar sl. fimmtudag á leið fram Glerárdal. Áfangastaður var Lambi, fram undir dalbotni.
Mynd: Ólafur H. Björnsson.

Sjaldan eða aldrei, á tímum aukinnar notkunar snjalltækja og tölva, hefur verið jafn rík ástæða til að hvetja ungt fólk til hollrar hreyfingar og útivistar. Í VMA eru nokkrir áfangar þar sem hreyfing og samvera úti í náttúrunni er í forgrunni. Og nemendur fá að kynnast ýmsum íþróttagreinum sem þeir hafa ekki áður kynnst.

Frá upphafi haustannar hafa verið margir frábærir dagar til útiveru og það hafa nemendur í útivistaráföngum nýtt sér vel.

Fyrir viku, mánudaginn 11. september, fóru nemendur í áfanganum HREY1ÚT01, sem er valáfangi í íþróttum, í heimsókn í Siglingaklúbbinn Nökkva á Akureyri. Þar var tekið vel á móti nemendum, þeir fengu smá kynningu á starfsemi Nökkva og fyrir hvað hann stendur og síðan var öllum boðið að sigla á kajak á spegilsléttum Pollinum. Þetta var eftirminnileg og skemmtileg heimsókn í alla staði og eru Nökkva færðar bestu þakkir fyrir móttökurnar.

---------

Síðastliðinnn fimmtudag, 14. september, fóru nemendur á Íþrótta- og lýðheilsubraut VMA í útivistarferð fram á Glerárdal og var þessi fjallaferð hluti af áfanganum ÍÞRG2ÚT03. Gengið var fram í Lamba, skála Ferðafélags Akureyrar, og gist þar eina nótt áður en haldið var heim sömu leið. Hugsunin með ferðinni var að kynnast útivistarmöguleikum í nágrenni Akureyrar, njóta náttúrunnar og gera eitthvað sem að sumir gera ekki dags daglega.

Ólafur H. Björnsson íþróttakennari var með nemendum í þessari ferð og tók meðfylgjandi myndir. Hann segir að ferðin hafi gengið í alla staði mjög vel.

Það er hollt og gott að sjá að stundum þarf að hafa aðeins meira fyrir hlutunum. Til dæmis þurfti að byrja að hita skálann, ná í vatn út í læk og hita til að hægt væri að nota í matseld, kakó og uppvask úti. Einnig til að skúra gólf áður en gengið var aftur heim. Fjallapönsur, afmæliskaka, spil og norðurljós voru meðal þess sem boðið var upp á.

Eins og meðfylgjandi myndir bera með sér er orðið nokkuð vetrarlegt um að litast fram undir botni Glerárdals, enda er hækkunin umtalsverð. Miðað við veðurspána þegar líða tekur á þessa viku má ætla að það bæti eitthvað í snjóinn þar fremra.

Stikuð leið fram í Lamba er því sem næst ellefu kílómetrar en Glerárdalurinn allur telst vera um sextán kílómetra langur.

Lambi, skáli Ferðafélags Akureyrar, var byggður árið 2014 og kom hann í stað eldra húss. Í húsinu er gistirými fyrir sextán manns.

Möguleikarnir til útivistar eru endalausir enda er svæðið vinsælt bæði að sumri og vetri. Það er friðlýstur fólkvangur, friðlýsingin öðlaðist gildi árið 2016. Í skýrslu Umhverfisstofnunar frá 2018 um hana segir m.a.:

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda Glerárdal og aðliggjandi fjalllendi til útivistar fyrir almenning, náttúruskoðunar og fræðslu. Friðlýsingin verndar auk þess land sem er að mestu ósnortið með fjölbreyttum jarðmyndunum og gróðurfari, og er þannig stuðlað að varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni og breytileika jarðmyndana.