Gerir það gott í lögfræðinni
Á árum sínum í VMA voru hugmyndir Hrannars Þórs Rósarssonar um framtíðina teknar að mótast. Hann var á viðskipta- og hagfræðibraut og lauk stúdentsprófi vorið 2017. Námið á viðskipta- og hagfræðibrautinni kveikti enn frekar þann eldneista að fara í viðskiptalögfræði, enda viðskipti og lögfræði nátengdar greinar þegar komið er út á vinnumarkaðinn.
Fyrsta árið eftir stúdentspróf tók Hrannar Þór sér hlé frá námi og mótaði frekar hugmyndir sínar um nám í framtíðinni. Niðurstaðan var að fara í lögfræði í Háskólanum í Reykjavík. Hann er núna á þriðja ári í því námi og líkar mjög vel. Hrannar er að ná eftirtektarverðum námsárangri því á dögunum komst hann á svokallaðan forsetalista HR sem þýðir að hann fær niðurfelld skólagjöld núna á vorönn. Þeir nemendur sem komast á þennan lista eru aðeins þeir sem ná bestum árangri á hverri önn og þurfa nemendur að hafa lokið að minnsta kosti þrjátíu einingum á önn. Hrannar Þór er einn þriggja nemenda á þriðja ári í lögfræði í HR sem komst á þennan lista að þessu sinni og fær niðurfelld skólagjöld sín á vorönn 2021.
„Á viðskipta- og hagfræðibraut í VMA voru augu mín opnuð fyrir fjármálalæsi og það ýtti undir að velja háskólanám sem tengdist þessu. Grunnurinn sem ég fékk í VMA er mjög góður og ég er enn í sambandi við kennarana sem kenndu mér á viðskipta- og hagfræðibraut. Ég hef alltaf haft áhuga á viðskiptum og hef tekið stefnuna á viðskiptalögfræði. Ég hef einnig haft áhuga á þjóðmálum og lögfræðin tengist þessu öllu, sérstaklega eru viðskiptafræði og lögfræði mjög tengdar greinar.
Ég valdi að fara í lögfræði í HR vegna þess að ég hafði heyrt ýmislegt jákvætt um lögfræðideildina þar, námið þar er vel skipulagt og hefur ríkar tengingar við atvinnulífið, sem mér finnst mjög mikilvægt og nytsamlegt upp á framhaldið, þegar maður fer út í atvinnulífið,“ segir Hrannar Þór og játar því að námið hafi gengið mjög vel og það sé afar ánægjulegt og hvetjandi að komast á forsetalistann og fá niðurfelld skólagjöld á þessari önn.
Hrannar lýkur BA-námi í lögfræðinni frá HR í vor og hefur sett stefnuna strax á meistaranám í lögfræði við HR. Þar segist hann horfa til náms sem verði blanda af lögfræði og viðskiptum. „Eins og staðan er núna er stefnan að starfa í framtíðinni að einhverju sem tengist bæði lögfræði og viðskiptum,“ segir Hrannar Þór Rósarsson.