Gestir frá Norðurlöndum í VMA
Góðir gestir frá þremur af okkar nágrannalöndum, Danmörku, Noregi og Finnlandi, voru í heimsókn í VMA í gær til þess að kynna sér starfsemi skólans. Allir eru þessir gestir fulltrúar skóla í sínum heimalöndum sem eru í samstarfsverkefnum með VMA.
Annars vegar taka Norðmenn og Finnar þátt í samstarfsverkefni með VMA og Fjölbrautaskólanum við Ármúla í Reykjavík þar sem fjallað er fyrst og fremst um framtíð nemenda með fötlun og hvað þeir taka sér fyrir hendur þegar þeir hafa lokið námi í framhaldsskóla.
Hinir norsku og finnsku gestir fengu í gær kynningu á starfsemi starfsbrautar VMA og hvernig tekist hefur með góðum árangri að byggja upp samstarf við atvinnulífið. Seinni partinn í gær fóru gestirnir ásamt kennurum af starfsbraut VMA suður yfir heiðar þar sem áframhald verður á þessari vinnu með samstarfskennurum í Fjölbrautaskólanum við Ármúla.
Einnig voru hér í gær þrír gestir frá Teck College í Álaborg í Danmörku, sem VMA á m.a. samstarf við í athyglisverðu verkefni um brottfall úr námi í framhaldsskóla. Hinir dönsku gestir verða á Akureyri fram á fimmtudag og munu m.a. kynna sér verknám í VMA en Tech College er sömuleiðis verkmenntaskóli.
Á meðfylgjandi mynd eru hinir dönsku, norsku og finnsku gestir í tröppum VMA ásamt Jóhannesi Árnasyni, verkefnastjóra erlendra samskipta í VMA, og starfsbrautarkennurunum Ragnheiði Gunnbjörnsdóttur og Rögnvaldi Ragnari Símonarsyni.