Gestkvæmt í VMA - opið hús kl. 16:30-18:00 í dag
Það var gestkvæmt í gær í VMA og svo verður einnig í dag. Grunnskólanemar úr skólum á Norðurlandi sækja skólann heim og kynna sér hvað hann hefur upp á bjóða. Punkturinn yfir i-ið í kynningu á VMA verður opið hús kl. 16:30 til 18:00 í dag þar sem allir eru velkomnir í skólann til þess að fræðast um námið, félagslífið og bara allt sem fólk langar að vita. Nemendur 9. og 10. bekkjar grunnskóla og forráðamenn þeirra eru sérstaklega boðnir velkomnir í skólann til þess að kynna sér starfið. Starfsfólk skólans verður á staðnum og leiðbeinir varðandi námsval og uppbyggingu náms.
Í gær heimsóttu skólann nemendur og kennarar grunnskóla í Þingeyjarsýslum, Eyjafirði og af Norðurlandi vestra en í dag koma í heimsókn í VMA nemendur og kennarar úr grunnskólum Akureyrar.
Samtals heimsækja skólann á þessum tveimur dögum yfir fjögur hundruð manns og er sannarlega gleðiefni að sjá aftur broshýra grunnskólanema á göngum skólans eftir tvö kóvidár.