Gjörningalist í þriðjudagsfyrirlestri
Í dag, þriðjudaginn 14. nóvember kl. 17-17.40, heldur bandaríska myndlistarkonan, Heather Sincavage, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Inescapable Presence. Í fyrirlestrinum mun hún fjalla um sína gjörningalist og það sem hún hefur í huga við sköpun nýrra verka: látbragð, líkamleika og endurtekningu, vinnuafl og vinnu kvenna. Fyrirlesturinn fer fram á ensku.
Sincavage er listakona, sýningarstjóri og kennari. Í verkum sínum nýtir hún gjörningalist og leitast við að skapa sjálfbæra gjörninga um málefni tengdum félagslegu jafnrétti. Hún notar eigin reynslu af ofbeldi í nánu sambandi í ferilsrannsókn þar sem greint er hvernig lífið er eftir áfall.
Verk Sincavage hafa verið sýnd víða í Evrópu og N-Ameríku, t.d. í Tate Modern. Hún kemur frá Suðaustur Pennsylvaníu og lauk BFA gráðu frá Tyler School of Art, Temple University í Philadelphia og MFA gráðu frá School of Art, University of Washington í Seattle.
Um þessar mundir starfar hún sem aðstoðarprófessor og framkvæmdastjóri Sordoni listagallerýsins í Wilkes háskólanum í Pennsylvaníu.
Sem fyrr er ókeypis aðgangur að fyrirlestrinum sem er hluti af Þriðjudagsfyrirlestraröðinni sem að standa listnáms- og hönnunarbraut VMA, Gilfélagið og Listasafnið á Akureyri.