Gleði í sól og blíðu í nýnemaferðum að Hólavatni
Það er ekki hægt að segja annað en að veðurguðirnir hafi tekið fagnandi á móti nýnemum í VMA í nýnemaferðum ársins, sem að þessu sinni voru farnar á Hólavatn í Eyjafjarðarsveit.
Vegna sóttvarnareglna var ákveðið að skipta nýnemunum, sem eru um tvö hundruð og tuttugu, í tvo hópa og fór fyrri hópurinn á Hólavatn sl. þriðjudag og sá seinni í gær, miðvikudag. Báða dagana var veður með eindæmum gott, í gær var lofthitinn 25-27 gráður, sem verður að teljast afar óvenjulegt á þessum tíma árs. Punkturinn yfir i-ið á þessu óvenjulega hlýja og sólríka sumri, einkum um norðan- og austanvert landið.
Farið var frá VMA um tíuleytið, báða dagana, og komið aftur til Akureyrar milli kl. 14.30 og 15:00. Nemendur og starfsfólk VMA naut veðurblíðunnar, brugðið var á leik á ýmsan hátt, sem fulltrúar Þórdunu - nemendafélags skólans stýrðu, grillgengi úr röðum starfsfólks grillaði fyrir mannskapinn og að lokum sýndu nemendur sínar bestu hliðar í bátsferðum og sundi í Hólavatni.
Hér eru myndir sem voru teknar í nýnemaferðinni í gær, miðvikudag, og hér eru miklu fleiri myndir sem Hilmar Friðjónsson kennari tók með myndavél og dróna.