Gleðidagur brautskráningarnema
Það hefur verið líf og fjör í VMA í dag, eins og vera ber á dimisjón, gleðidegi brautskráningarnema. Þeir tóku daginn snemma og heimsóttu kennara sína árla morguns en síðan lá leiðin í VMA þar sem þeir minntu á sig með ýmsum uppátækjum, tónlist, gleði og sælgæti á allar hendur. Gryfjan var síðan vettvangur gleðinnar í klukkutíma - frá hálf tíu til hálf ellefu - þar sem nemendur kepptu innbyrðis í reiptogi, sjómanni o.fl. og einnig kepptu þeir við kennara. Engum sögum fer af úrslitum dagsins en kennarar sýndu áður óþekkta takta í reiptoginu! Gleðinni lauk með því að skólinn bauð brautskráningarnemum og starfsfólki upp á kaffi og bakkelsi í A-álmu.
Hér eru myndir sem Árni Már Árnason tók í dag:
Albúm 1
Albúm 2
Hér eru myndir sem Hilmar Friðjónsson tók í dag:
Albúm 1
Albúm 2
Albúm 3
Albúm 4
Hefð er fyrir því að brautskráningarnemar í maí og desember sameinist um dimisjón - og því komu saman í dag í skólanum nemendur sem ljúka formlega námi sínu í næsta mánuði og á desemberútskrift 2024.
Skóli fellur að sjálfsögðu niður á morgun, 1. maí, en í það heila eru eftir sjö kennsludagar, tveir í þessari viku, fjórir í næstu viku (frí á uppstigningardag) og síðasti kennsludagur vorannar verður mánudaginn 13. maí.