Fara í efni

Gleðilegan bollu-, sprengi- og öskudag!

Á einum helsta nautna- og óhollustudegi ársins, bolludeginum, sem er í dag, er rétt að skyggnast aðeins á bak við tjöldin og skoða söguna. Hvaðan kemur þessi siður og hversu gamall er hann?

Staðsetning bolludags í almanakinu ræðst af því hvenær páskarnir eru. Hann er alltaf mánudagurinn í sjöundu viku fyrir páska (2. febrúar til 8. mars). Páskarnir í ár eru á síðari skipunum og þess vegna eru dagarnir þrír - bolludagur, sprengidagur og öskudagur – óvenju seint í ár.

En það er með bolludaginn eins og svo marga daga að hann tengist upphaflega kristninni og kaþólskum sið sem var við lýði á Íslandi fram á miðja sextándu öld, eins og kemur fram í bók Árna Björnssonar þjóðháttafræðings, Sögu daganna. Það var sem sagt þekkt að kjötfasta dagana tvo fyrir upphaf páskaföstu. En síðan virðast rætur bolludagsins mega rekja til Danmerkur og norðanverðs Þýskalands því þaðan er kominn sá siður að flengja fólk að morgni þessa mánudags með vöndum. Hingað komu flengingar og bolluát seint á nítjándu öld og þar áttu hlut að máli danskir og norskir bakarar en nafnið bolludagur er ekki þekkt í íslensku máli fyrr en eftir aldamótin 1900. Sá siður að slá köttinn úr tunnunni kom frá Danmörku og var í byrjun tengdur bolludegi en fyrir rúmum hundrað árum færðist hann yfir á öskudaginn.

Á síðustu árum og áratugum hefur bolludagurinn þróast út í það sem hann er í dag, sem gengur fyrst og fremst út á að borða bollur í stórum stíl. Þetta er því einn af árshátíðardögum bakara landsins – og vissulega mikill bakstursdagur inn á heimilunum líka. Og eins og með marga daga sem við Íslendingar höldum upp á hefur bolludagurinn verið í mikilli útþenslu og helgin áður og jafnvel vikan áður er undirlögð af bollum. En bolluvöndurinn virðist á hraðri útleið, því miður.

Sprengidagur

Saltkjöt og baunir túkall, er oft sagt, réttur sprengidagsins. Eins og með bolludaginn er sprengidagurinn að öllum líkindum úr kaþólskum sið – sem sagt þriðjudagur í sjöundu viku fyrir páska. Sá siður að borða saltkjöt og baunir á þessum degi virðist ekki þekktur á Íslandi fyrr en á nítjándu öld. Um þennan dag þróuðust ýmis heiti á íslensku, auk sprengidags, t.d. sprengikvöld, sprengjudagur eða sprengir. Nafnið sprengidagur er óneitanlega líkt þýska hugtakinu Sprengetag sem enn er notað í katólskri hefð og merkir að stökkva vígðu vatni í kirkjum. En það líklegasta er þó að merking nafsins sprengidagur tengist því að fólk borði sig á gat eða undir spreng, að það borði svo mikið af saltkjöti og baunum að það sé að springa.

Öskudagur

Og þriðji í röð þessara bræðra er öskudagurinn – miðvikudagurinn í sjöundu viku fyrir páska. Þá hefst langafasta og stendur til páska. Öskudaginn má einnig rekja til kaþólskunnar, þá var ösku dreift yfir höfuð iðrandi kirkjugesta og jafnvel með einhvers konar vendi yfir allan söfnuðinn.

Öskudagur er þekktur hér á landi frá miðri fjórtándu öld og kann að vera enn eldri. Öskupokarnir og sá siður að hengja þá aftan á fólk með laumulegum hætti er líka gamalgróinn siður á Íslandi en hefur smám saman verið að deyja út eins og bolluvendirnir.

Sem fyrr segir var sá siður tengdur bolludeginum að slá köttinn úr tunnunni en hann færðist síðan yfir á öskudaginn. Reyndar er orðið lítið um að krakkar slái köttinn úr tunnunni en þeim mun meira er um að þeir fari á milli verslana og annarra fyrirtækja, uppáklæddir í ýmsum búningum, syngi og fái að launum eitthvað gott í gogginn.

Og ekki má skilja við öskudaginn án þess að geta þeirrar gömlu þjóðtrúar að hann eigi sér átján bræður með líkri veðráttu – líklega þá að átján dagarnir á eftir öskudegi hafi svipaða veðráttu og öskudagur. Og þá er bara að fylgjast vel með hvernig veðrið verður á öskudaginn!