Glíman við íslenskuna
Faith Veronica Wambui frá Kenía og Gareese Gray frá Jamaíka eru að fóta sig í nýju landi þar sem eitt og annað er mjög svo frábrugðið því sem þau eiga að venjast frá sínum heimalöndum. En þau horfa bæði bjartsýn fram á veginn og sjá framtíð sína hér á landi.
Við erum í kennslustund í íslensku sem annað mál. Fimm af sex nemendum í áfanganum, sem Annette de Vink kennir, eru mættir. Þeir nemendur sem eru mættir eru frá Kenía, Jamaíka, Tælandi og Lettlandi. Nemendur glíma sem fyrr við öll þau öngstræti sem íslenskan býður upp á. Verkefni dagsins er meðal annars veikar og sterkar sagnir.
Íslenskan er erfitt tungumál að læra, um það verður ekki deilt. En Faith Veronica leggur á það áherslu að þetta sé verkefni sem þurfi að leggja alúð við. Auk íslenskunnar tekur hún áfanga á matvælabraut og kann því vel. Hún kom frá sínu heimalandi, Kenía, til Akureyrar snemma á síðasta ári. Systir hennar hefur búið á Akureyri í fimm ár og kann því vel. Enskan er annað af móðurmálum Faith Veronicu og því á hún auðvelt með öll samskipti en engu að síður segir hún mikilvægt að læra íslenskuna og það ætlar hún að gera. Hún segist lengi hafa haft áhuga á að læra viðskipti og hún vonast til að sá draumur geti ræst. Hún kann lífinu vel á Akureyri og hún sér fyrir sér bjarta framtíð á Íslandi, hér sé mun meira öryggi en hún hafi átt að venjast í sínu heimalandi. Það sé mikils virði. Hins vegar sé það henni töluverð fyrirstaða að hafa ekki enn fengið íslenska kennitölu, hún sé grunnurinn að svo mörgu í samfélaginu. Engu að síður geti hún stundað nám í VMA og það sé sér mikils virði.
Gareese Gray stundar einnig nám á matvælabraut VMA en hingað til lands kom hann í nóvember 2019. Hann býr hjá móður sinni og stjúpföður á Akureyri en faðir hans býr í Bandaríkunum. Hann segir að vissulega sé tungumálið erfitt viðureignar en hann geti talað lítillega og skilji líka töluvert. Þetta komi smám saman. Gareese segir að vissulega sé ýmislegt öðruvísi á Íslandi en Jamaíka, t.d. veðrið, en íslenska veðrið trufli hann ekki lengur. Auk skólans segist hann vinna á DJ-grilli á Akureyri og gangi þar í öll störf – þ.m.t. að elda og í afgreiðslu – og ekki megi gleyma því að hann sæki ræktina á Bjargi reglulega.