Glíman við legó
Einn af áföngunum sem hluti af nýnemum á sérnámsbraut hefur verið í núna á haustönn kallast Náms- og starfskynning. Í áfanganum er nemendum veitt innsýn í fjölmarga og ólíka hluti í því skyni að opna fyrir þeim og vekja áhuga þeirra á ýmsu sem þeir hafa ef til vill ekki þekkt til áður. Þar má nefna eitt og annað sem hægt er að gera í FabLab Akureyri smiðjunni, sem er til húsa í húsakynnum VMA, listgreinar – hvort sem er að teikna, mála eða taka ljósmyndir, smíðar, heimilisfræði o.fl.
Og ekki má gleyma legóinu sem nemendur hafa glímt við. Og þetta er ekkert venjulegt legó og einfalt er það ekki. Leikfangaverslunin Kids Coolshop á Glerártorgi á Akureyri var svo höfðingleg að gefa skólanum/sérnámsbrautinni nokkur legósett í tilefni af 40 ára afmæli VMA og úr þeim hafa nemendur verið að vinna. Hér þarf að hafa eitt og annað að leiðarljósi, ekki síst þolinmæði, skipulagshæfni og nákvæmni. Og sannarlega felst í þessum gestaþrautum að fylgja leiðbeiningunum í hvívetna því eitt lítið feilspor getur sett risastórt strik í reikninginn – og þá þarf mögulega að byrja alveg upp á nýtt!
Það hefur verið einkar skemmtilegt að sjá nemendur spreyta sig á því að leysa þessar flóknu legóþrautir. Einbeitingin og gleðin er ósvikin.
Takk Kids Coolshop fyrir þennan góða stuðning við nemendur á sérnámsbrautinni!