Glíman við sagnirnar
Það er krefjandi verkefni en jafnframt afar gefandi að kenna íslensku sem annað mál. Eins og komið hefur fram hér á vef VMA hefur á síðustu árum fjölgað ár frá ári nemendum í skólanum sem hafa ekki íslensku sem sitt móðurmál. Núna á haustönn sækja á þriðja tug nemenda nám í íslensku sem öðru máli og hafa aldrei verið fleiri. Kennt er í tveimur hópum, í öðrum eru nemendur sem eru að stíga sín fyrstu skref í íslenskunámi og í hinum eru nemendur sem eru lengra komnir.
Þegar litið var inn í kennslustund í íslensku sem öðru máli var Annette de Vink kennari að kenna nemendum í byrjunaráfanga ýmislegt varðandi sagnir í íslensku. Það er með sagnorðin eins og margt annað í íslenskunni að sú staðreynd að íslenskan skiptist í karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn flækir málið umtalsvert fyrir nemendum. En þrátt fyrir það var augljóst að nemendurnir, sem eru frá Evrópu, Asíu og Suður-Ameríku, höfðu ánægju af því að glíma við sagnaverkefni dagsins og nýttu sér þau hjálpartæki sem í boði voru – og svo auðvitað leiðsögn Annette kennara.
Í VMA er unnið samkvæmt sérstakri móttökuáætlun þegar nemendur af erlendum uppruna hefja nám í skólanum. Sjá nánar hér.