Glíman við túlípanavöndinn
Það er gömul saga og ný að grunnurinn þarf að vera traustur og góður til þess að unnt sé að byggja ofan á hann. Einn af grunnáföngum nemenda á listnámsbraut er teikning, þar sem farið er í öll grunnatriðin í teikningu og nemendur fá góða æfingu í því að teikna ýmis form. Hluti af þjálfuninni felst í því að yfirfæra þvívíða fyrirmynd í tvívíða teikningu og jafnvel þrívíða.
Þegar litið var inn í tíma hjá Hallgrími Ingólfssyni voru nemendur hans, sem eru á fyrstu önn í náminu, að teikna túlípanavönd. Það reyndi á hina þrívíðu hugsun og hvernig unnt væri að koma fyrirmyndinni á blað með öllum sínum skuggum og sjónrænu tilbrigðum.
Hallgrímur segir að hann noti margar og mismunandi fyrirmyndir í tímunum, með því móti fái nemendur fjölþætta þjálfun í að teikna. Hann segir aldrei of mikla áherslu vera lagða á teikningu, í hvaða átt sem nemendur fari að loknu námi á listnámsbraut sé mikilvægt og í raun nauðsynlegt að nemendur séu færir um að geta gripið til blýantsins til þess að rissa fríhendis upp ólík form.
Hér eru nokkur dæmi um blýantsteikningar sem hafa orðið til í haust í þessum fyrsta grunnáfanga nemenda í teikningu.