Fara í efni

Góð gjöf Rafmanna til VMA

Við afhendingu gjafar Rafmanna ehf. til VMA.
Við afhendingu gjafar Rafmanna ehf. til VMA.

Rafiðn- og þjónustufyrirtækið Rafmenn á Akureyri færði rafiðnbraut VMA í dag veglega afmælisgjöf á 40 ára afmælisári skólans, gjafabréf að upphæð kr. 500.000 til endurnýjunar á verkfærum og búnaði til kennslu í rafvirkjun/rafeindavirkjun. Gjafabréfið er í formi inneignar hjá Fagkaupum (Johan Rönning) á Akureyri.

Haukur Eiríksson, brautarstjóri rafiðnbrautar VMA, segir þessa peninga koma að afar góðum notum og þeir verði nýttir til endurnýjunar á kennslubúnaði, m.a. rafmagnsverkfærum, borvélum, skrúfvélum o.fl.

Fyrirtækið Rafmenn ehf. var stofnað árið 1997 og hefur það eflst mjög og dafnað á þeim 27 árum sem það hefur starfað. Meirihlutaeigandi og stofnandi Rafmanna er Jóhann Kristján Einarsson rafvirkjameistari en meðeigendur hans í fyrirtækinu í dag eru Eva Dögg Björgvinsdóttir viðskiptafræðingur og skrifstofustjóri, Ketill Þór Thorstensen rafvirkjameistari og verkstjóri, Björgvin Björgvinsson rafvirki og verkstjóri og Halldór Eiríksson rafvirkjameistari og verkstjóri.

Rafmenn annast alhliða þjónustu í heimilis- og fyrirtækjalögnum, öryggis-, síma og tölvulögnum. Einnig þjónustar fyrirtækið rafbúnað í hinum ýmsu tækjum fyrir fjölda fyrirtækja.

Á meðfylgjandi mynd, sem var tekin við afhendingu gjafabréfsins við höfuðstöðvar Rafmanna að Frostagötu 6c á Akureyri, eru frá vinstri Eva Dögg Björgvinsdóttir skrifstofustjóri Rafmanna, Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA, Jóhann Kristján Einarsson rafvirkjameistari og aðaleigandi Rafmanna, Guðmundur Geirsson kennari við rafiðnbraut VMA, Haukur Eiríksson brautarstjóri og kennari við rafiðnbraut VMA og Óskar Ingi Sigurðsson kennari við rafiðnbraut VMA.

Verkmenntaskólinn á Akureyri færir Rafmönnum ehf. bestu þakkir fyrir þessa góðu gjöf sem mun nýtast rafiðnbraut skólans afar vel.