Góð gjöf til rafiðndeildar
Rafvirkjafélag Norðurlands og Smith &Norland færðu VMA að gjöf á dögunum sex Siemens LOGO stýritölvur sem Óskar Ingi Sigurðsson, brautarstjóri rafiðngreina, segir að komi sannarlega að góðum notum og vill hann koma á framfæri innilegu þakklæti fyrir þessa góðu gjöf.
Óskar Ingi segir að þessar nýju Siemens stýri- eða iðntölvur auki á fjölbreytnina við kennslu í rafiðngreinum í VMA en eins og nafnið gefur til kynna stýra þær vélbúnaði.
Á heimasíðu Félags íslenskra rafvirkja kemur fram að félagið ásamt Rafvirkjafélagi Norðurlands, Félagi rafiðnaðarmanna á Suðurlandi og Rafiðnaðarfélagi Suðurnesja – í samstarfi við Smith & Norland – séu þessa dagana að gefa öllum verknámsskólum landsins slíkar Siemens LOGO stýritölvur, sem þýði „að allir skólar á landinu geta nú kennt á sömu vélarnar og kemur þetta til með að nýtast t.d við stýriverkefni á Íslandsmóti iðn- og verkgreina,“ eins og segir orðrétt á heimasíðu Félags íslenskra rafvirkja. Þá er þess getið að unnið verði að gerð kennsluefnis fyrir stýrivélarnar sem hægt verði að nálgast á www.rafbok.is en þar er að finna bróðurpart námsefnis sem kennt er í rafiðngreinum.
Á meðfylgjandi mynd, sem var tekin þegar stýritölvurnar voru afhentar, eru frá vinstri: Helgi Jónsson, formaður Rafvirkjafélags Norðurlands, Óskar Ingi Sigurðsson, brautarstjóri rafiðngreina í VMA, Sigríður Huld Jónsdóttir, aðstoðarskólameistari, Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari og Ari Baldurssonm, kennari í rafiðngreinum.
Hér eru fleiri myndir sem Hilmar Friðjónsson tók þegar Helgi Jónsson afhenti VMA gjöfina fyrir hönd Rafvirkjafélags Norðurlands og Smith og Norland.