Fara í efni

Góð heimsókn frá Wels í Austurríki

Irmgard Stieger (t.v), Beverley Allen-Stingeder og Dagný Hulda Valbergsdóttir.
Irmgard Stieger (t.v), Beverley Allen-Stingeder og Dagný Hulda Valbergsdóttir.

Beverley Allen-Stingeder og Irmgard Stieger, kennarar við verknámsskóla í Wels í Austurríki, eru í heimsókn í VMA í þessari viku og kynna sér skólastarfið frá ýmsum hliðum. Heimsóknin er styrkt af Erasmus+, styrkjaáætlun ESB fyrir mennta-, æskulýðs og íþróttamál.

Skólinn í Wels leggur áherslu á nám frá ýmsum sjónarhornum sem nýtist nemendum m.a. til verslunarstarfa. Nemendur eru á aldrinum 15-20 ára.

Wels er um sextíu þúsund manna borg í sambandsfylkinu sem er kallað Efra-Austurríki. Borgin er suðvestur af Linz, sem er höfuðborg Efra-Austurríkis með rétt um 200 þúsund manna íbúafjölda.

Heimsókn Beverley og Irmgard var á dagskrá fyrir kóvidfaraldurinn en núna loksins gátu þær látið verða af því að fara til Íslands. Þær komu í VMA í gær, verða í dag og fara einnig austur í Lauga í Reykjadal og kynna sér skólann þar og síðasti dagur heimsóknarinnar í VMA verður á morgun.

Jóhannes Árnason kennari hefur ásamt Dagnýju Huldu Valbergsdóttur, sem sér um erlend samskipti VMA, haft veg og vanda að skipulagningu heimsóknarinnar til Akureyrar.