Góðar í skúffukökunum!
Hluti af námi nýnema á almennri braut á haustönn er svokallað NSK – náms- og starfsfræðsla sem er í því fólgin að nemendur kynna sér ólíkar verknámsbrautir skólans og eru í nokkrar kennslustundir á hverri braut. Með því móti fá þeir innsýn í einstaka verknámsbrautir sem getur hjálpað þeim að finna þá leið sem þeim hentar í áframhaldinu í skólanum. Þess eru mýmörg dæmi að einmitt þessi leið hefur leitt nemendur á sínar réttu brautir og markað þannig framtíð þeirra.
Ein af námsbrautunum sem nemendur sækja nokkrar kennslustundir er matvælabrautin. Ari Hallgrímsson brautarstjóri segir að nemendum á almennri braut sé skipt upp í nokkra hópa og hver og einn hópur fái ákveðinn fjölda kennslustunda á hverri braut. Á matvælabrautinni kynnast þeir í stórum dráttum í hverju starf kokka og þjóna felst og hvernig þeir bera sig að við vinnu sína auk þess sem nemendur fá að spreyta sig á einfaldri eldamennsku og bakstri. Þegar tíðindamaður heimasíðunnar leit við á matvælabrautinni hafði NSK-hópur lokið við að baka dýrindis skúffuköku og var að bragða á afrakstrinum.
Ari segir það jákvætt að nemendur á almennri braut fái með þessu móti tækifæri til þess að takast á við ýmis verkefni og ánægjulegt sé að sjá að margir nemendur njóti þess mjög að takast á við þau.
Hér er hópur NSK-nemenda við matarborðið á matvælabrautinni, þess albúinn að snæða dýrindis skúffuköku sem hann hafði bakað.