Góðir gestir frá Þrándheimi
Lengi hafa VMA og framhaldsskólinn Charlottenlund í Þrándheimi í Noregi átt í góðu samstarfi á ýmsum sviðum. Skólarnir hafa unnið saman að ýmsum verkefnum og einnig hafa nemendur og kennarar frá VMA heimsótt Charlottenlund og öfugt. Þessa viku hafa fjórir nemendur úr textíldeildinni í Charlottenlund verið í heimsókn í VMA ásamt tveimur kennurum frá skólanum til þess að kynna sér skólastarfið.
Nemendurnir frá Þrándheimi eru Oda Espås, Linni Sölsnes, Ragna Furunes og Josefine Berdal og einnig eru í för kennararnir Torkild Svorkmo-Lundberg og Halldis Berg.
„Ég hygg að samstarf skólanna hafi hafist fyrir tveimur árum og síðan höfum við unnið saman að ýmsum mismunandi verkefnum og í augnablikinu held ég megi segja að við eigum í samstarfi um sex mismunandi verkefni. Við Jóhannes Árnason kennari hér í VMA tókum tal saman árið 2013 og komumst fljótt að því að skólarnir okkar ættum margt sameiginlegt – t.d. er stærð þeirra svipuð og námsframboð á margan hátt sambærilegt. Og við eigum einnig við töluvert brottfall að stríða, eins og er þekkt í VMA og í öðrum framhaldsskólum á Íslandi. En leiðir okkar til þess að taka á þessu vandamáli eru mismunandi og það er lærdómsríkt að skiptast á hugmyndum. Charlottenlund er sambærilegur við VMA að því leyti að bóklegt og verklegt nám skiptist sem næst til helminga. Við höfum komið á nemendaskiptum og þessi heimsókn núna er liður í því. Og núna er nemandi á hárgreiðslubraut VMA í verklegu námi í Þrándheimi. Þessi nemendaskipti njóta fjárhagslegs stuðnings úr norrænu samstarfi. Ég tel tvímælalaust að samstarf skólanna sé afar mikilvægt og nú þegar hefur það skilað góðum árangri. Það væri áhugavert að textílnemendur frá okkur gætu tekið hluta af sínu námi hér og það sama má segja um ákveðna hluti í málmiðnaðarnámi, mögulega í samstarfi við Slippinn. Það eru því ýmsir áhugaverðir hlutir í þessu samstarfi sem koma báðum skólum og þar með nemendum þeirra til góða,“ segir Torkild Svorkmo-Lundberg, sem er orðinn bærilega vel kunnugur hér á landi. Þessi heimsókn er hans þriðja til Akureyrar á þessu ári! Hann er því sannarlega kominn í hóp Íslands- sem og Akureyrarvina!
Charlottenlund er stærsti framhaldsskólinn í Þrándheimi og er bróðurpartur nemenda úr borginni en á sérhæfðum námsbrautum eins í textíl eru einnig nemendur úr nágrannabyggðum.
Norsku gestirnir fara suður til Reykjavíkur í dag og halda síðan áfram til Noregs á morgun.