Góðir gestir frá Þrándheimi
Síðastliðinn sunnudag komu til Akureyrar fjórar stúlkur, textílnemendur, ásamt kennara sínum frá framhaldsskólanum Charlottenlund í Þrándheimi í Noregi og munu þær dvelja á Akureyri þessa viku og næstu og kynna sér námið í VMA auk þess að heimsækja gallerí og ýmsar listasmiðjur á Akureyri. Ferðin er styrkt af Erasmus.
Undanfarin ár hefur verið mjög gott samstarf milli Charlottenlund og VMA, enda skólarnir á margan hátt svipaðir, með blöndu af verklegu og bóklegu námi. Bæði nemendur og kennarar frá báðum skólum hafa skipst á heimsóknum og fóru sex textílnemendur frá VMA ásamt tveimur kennurum til Þrándheims í septemer sl. og kynntu sér námið þar og heimsóttu listasmiðjur í borginni. Tókst sú ferð með miklum ágætum og voru þátttakendur í ferðinni mjög ánægðir með hvernig til tókst.
Og nú er VMA sem sagt gestgjafinn og sl. mánudag komu stúlkurnar ásamt kennara sínum, Halldis Berg, í skólann og hafa nú þegar kynnt sér og tekið þátt í fjölbreyttum kennslustundum á listnámsbraut. Og framundan er skemmtileg og fjölbreytt dagskrá með blöndu af kennslustundum í VMA og heimsóknum á söfn, gallerí og listasmiðjur á Akureyri. Og auðvitað verður tíminn einnig nýttur til skoðunarferða um nágrennið, t.d. er m.a. áætluð skoðunarferð í Mývatnssveit.
Stúlkurnar fjórar frá Charlottenlund sem núna eru í heimsókn í VMA koma víða að úr Noregi, ein þeirra er frá Þrándheimi, önnur frá Tromsö og tvær frá minni stöðum í nágrenni Þrándheims. Þær eru á fyrstu önn í textílnáminu í Charlottenlund en í það heila er námið tvö ár auk tveggja ára á vinnustað. Námið í VMA er því töluvert frábrugðið því sem þekkist í Charlottenlund.
Á meðfylgjandi mynd eru norsku stúlkurnar fjórar með kennara sínum. Standandi frá vinstri: Alhalabi Nour, Julie Johansen og Halldis Berg. Sitjandi frá vinstri: Andrea Vasseng og Anne Gausen Forve