Góðir gestir úr FB
Í liðinni viku heimsóttu fimm kennarar á sjúkraliðabraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti í Reykjavík VMA og kynntu sér sjúkraliðabraut skólans og skólastarfið almennt. Ein af kennurunum er Hannesína Scheving sem þekkir vel til VMA því hún starfaði þar til fjölda ára sem kennari og skólahjúkrunarfræðingur, þar til á síðasta ári er hún flutti suður yfir heiðar og fór að kenna í FB.
Auk Hannesínu komu í heimsókn í VMA Karen Júlía Júlíusdóttir fagstjóri sjúkraliðabrautar FB, Sigurlaug Björk Jóhannesdóttir Fjeldsted, Aníta Guðný Gústavsdóttir og Sonja Brödsgaard Guðnadóttir.
Hannesína segir að mikil ánægja hafi verið með heimsóknina í VMA. María Albína Tryggvadóttir, brautarstjóri sjúkraliðabrautar, og Anna María Jónsdóttir, sviðsstjóri verknáms, tóku á móti gestunum úr FB og sýndu þeim skólann og einnig sagði Benedikt Barðason, aðstoðarskólameistari, þeim frá skólastarfinu. Hannesína segir alltaf gott fyrir skólafólk að sjá hvernig staðið sé að málum í öðrum skólum, við það kvikni nýjar hugmyndir og mikilvægt sé að skólar miðli sín á milli góðum hugmyndum.
Auk heimsóknarinnar í VMA fóru FB-kennararnir í heimsókn í Háskólann á Akureyri og fengu þar kynningu á framhaldsnámi sjúkraliða sem nú er hafið. HA er fyrsti háskólinn á Íslandi sem býður upp á fagnám til diplómanáms fyrir starfandi sjúkraliða. Þetta er tveggja ára sveigjanlegt nám sem nemendur geta stundað samhliða vinnu.
Sjúkraliðabrautin í FB er ein sú stærsta á landinu. Þar segir Hannesina að séu nú samtals um 270 nemendur í dag- og kvöldskóla. Hlutur kvöldskólans hefur verið að aukast ár frá ári.